• Iðnaðarmaður á byggingastað

Upplýsingasíða um ólögmætt samráð á byggingavörumarkaði.

Með ákvörðun nr. 11/2015, brot Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga, lauk umfangsmikilli rannsókn Samkeppniseftirlitsins á byggingavörumarkaðnum. Einkum var til rannsóknar hvort Byko og Húsasmiðjan hefðu haft með sér ólögmætt samráð.

Í júlí á síðasta ári lauk rannsókn málsins gagnvart Húsamiðjunni, með því að fyrri rekstraraðilar Húsamiðjunnar viðurkenndu brot og greiddu sekt, auk þess sem núverandi rekstraraðilar fyrirtækisins skuldbundu sig til þess að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari brot.

Þessi upplýsingasíða veitir aðgang að upplýsingum um framangreinda rannsókn og niðurstöður hennar. Síðunni er ætlað að auðvelda fyrirtækjum á byggingavörumarkaði, viðskiptavinum þeirra og öðrum áhugasömum að kynna sér málið. Mikilvægt er að úrlausn málsins geti orðið fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra leiðbeining um starfshætti á samkeppnismörkuðum.

Spurningar og svör:

Af hverju leggja samkeppnislög bann við verðsamráði keppinauta?

Samkeppni í viðskiptum er mjög æskileg þar sem hún eykur velferð neytenda og stuðlar að hagkvæmni í atvinnulífinu. Hún stuðlar að lægra verði, betri þjónustu, nýsköpun og framförum í atvinnurekstri. Á sama hátt og ljóst er að samkeppni hefur jákvæð áhrif liggur fyrir að samkeppnishömlur geta valdið almenningi og atvinnulífinu miklum skaða, sérstaklega hömlur sem stafa af samráði keppinauta.

Stofnanir og fræðimenn eru sammála um að samráð keppinauta, t.d. um verð, sé mjög skaðlegt og geti skapað viðkomandi fyrirtækjum mikinn fjárhagslegan ávinning á kostnað neytenda. Til skamms tíma var talið varfærið að líta svo á að ávinningur af verðsamráði væri að meðaltali 10% af söluverði en tjón samfélagsins af samráðinu gæti numið 20% af umfangi þeirra viðskipta sem samráðið tæki til. Nýrri rannsóknir gefa hins vegar til kynna að þetta feli í sér vanmat á tjóni neytenda og viðskiptalífsins af samráði. Í skýrslu OECD frá 2005 er t.d. sagt að rannsóknir gefi til kynna að ólögmætt samráð geti leitt til allt að 60-70 % hærra verðs en ella. Sterk rök standa til þess að tjón af völdum samráðs geti verið enn meira á Íslandi en í stærri ríkjum. 

Með vísan til þessarar skaðsemi samráðs ákvað Alþingi árið 2007 að hækka hámarksrefsingu vegna þátttöku starfsmanna í samráði fyrirtækja úr fjögurra ára í sex ára fangelsi.

Hvers vegna er Samkeppniseftirlitið að taka ákvörðun núna, lauk málinu ekki fyrir dómi í apríl sl.?

Rannsókn lögreglu annars vegar og Samkeppniseftirlitsins hins vegar á ætluðu samráði á byggingavörumarkaði fela, samkvæmt samkeppnislögum, í sér tvö tengd en algerlega sjálfstæð mál. Í sakamálinu rannsakar lögregla þátt starfsmanna fyrirtækja en í stjórnsýslumálinu rannsakar Samkeppniseftirlitið aðgerðir fyrirtækja. Stjórnsýslumál og sakamál lúta ólíkum lögmálum. Fyrirtæki eru ekki aðilar að sakamálinu og einstaka starfsmenn ekki aðilar að stjórnsýslumálinu. 

Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í sakamáli gegn ákveðnum starfsmönnum Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins þann 9. apríl sl. Voru þar allir nema einn sýknaðir af þeirri kröfu ákæruvaldsins að þeir yrðu dæmdir til refsingar fyrir brot á samkeppnislögum. Þeirri niðurstöðu héraðsdóms hefur nú verið áfrýjað af ákæruvaldinu til Hæstaréttar. Lyktir þess máls fyrir Hæstarétti munu ekki hafa áhrif á stjórnsýslumálið gagnvart fyrirtækjunum.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á gömlu Húsasmiðjunni lauk í júlí 2014. Þá gerði Húsasmiðjan sátt við Samkeppniseftirlitið. Viðurkenndi hún brot og greiddi sektir. Byko óskaði hins vegar ekki eftir sátt og er í dag tekin ákvörðun vegna brota Byko. Ef Byko unir ekki ákvörðun Samkeppniseftirlitsins getur fyrirtækið skotið henni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum síðan til dómstóla. Fyrir dómstólum yrði slíkt mál rekið sem einkamál en ekki sakamál.

Hvernig getur Byko verið brotlegt ef allir nema einn í sakamálinu voru sýknaðir?

Sakamálið og stjórnsýslumálið lúta ólíkum lögmálum og taka ekki til alveg sömu tilvika og tímabils. Í öðru málinu er tekin afstaða til háttsemi fyrirtækja og í hinu tekin afstaða til háttsemi einstaklinga. Ólíkar málsmeðferðarreglur gilda í málunum tveimur.

Áherslur í rannsókn og sönnunarstaða í þessum tveimur tegundum mála er jafnan mismunandi. Í stjórnsýslumálinu snýst rannsóknin um það hvort fyrirtækið sem ein heild hafi brotið af sér. Fyrirtækið ber ábyrgð á öllum aðgerðum sem starfsmenn grípa til í starfi sínu.  Þar getur því t.d. haft talsverða þýðingu að um brot fyrirtækis getur verið að ræða jafnvel þótt starfsmaður þess hafi ekki haft heimild til verknaðarins, hann hafi verið framinn án vitneskju stjórnenda fyrirtækisins eða verknaðurinn hafi verið í beinni andstöðu við fyrirmæli stjórnar fyrirtækis. Í úrlausn Samkeppniseftirlitsins er ekki tekin afstaða til sektar eða sýknu einstaklinga, en eðli máls samkvæmt er fjallað um athafnir starfsmanna og stjórnenda, í því skyni að varpa ljósi á það hvort fyrirtækið hafi brotið af sér.

Í sakamálinu er hins vegar ekki horft á háttsemi fyrirtækisins sem einnar heildar heldur er þáttur hvers starfsmanns fyrir sig til rannsóknar. Þótt stjórnsýslumálið og sakamálið eigi rót sína að rekja til sömu atvika getur framangreint leitt til þess að rannsóknarandlag þeirra sé ólíkt að tíma og umfangi. Hið sama gildir um sönnunaratriði.

Af framangreindu leiðir að niðurstaðan í stjórnsýslumálinu hefur ekki bindandi réttaráhrif í sakamálinu og öfugt.

Banna samkeppnislög verðkannanir?

Hugtakið „verðkönnun“ er hvergi skilgreint í samkeppnislögum og ekki kemur fram í þeim lögum að verðkannanir sem slíkar séu ólögmætar. Hefðbundnar verðkannanir eru algengar og bæði neytendur og fyrirtæki geta haft gagn af gagnsæi um verð og önnur viðskiptamálefni. Það getur hins verið ólögmætt samráð ef samstarf eða samskipti keppinauta (sem þeir kjósa stundum að kalla verðkannanir) leiða til þess að til verður gagnsæi sem ekki er hluti af hinu „náttúrulega“ ástandi viðkomandi markaðar.

Sjálfstæði keppinauta á markaði og æskileg óvissa þeirra um aðgerðir hvers annars er mikilvæg forsenda fyrir samkeppni, sérstaklega á fákeppnismörkuðum. Það getur þannig verið mjög skaðlegt fyrir verðsamkeppni ef keppinautar draga með samskiptum sínum (verðkönnunum) úr óvissu með því að skapa „tilbúið gagnsæi“. Í samskiptunum geta falist samstilltar aðgerðir keppinauta, sem er ein birtingarmynd ólögmæts samráðs. Bein upplýsingagjöf milli keppinauta um verð getur aldrei eða sjaldan verið eðlileg og er til þess fallin að raska allri samkeppni.

Það sem samráðsfyrirtækin, í máli því sem hér er til umfjöllunar, nefndu „verðkannanir“ fól í sér reglubundin og skipulögð samskipti yfir langt tímabil eins og lýst er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Tilgangurinn með þeim var að hækka verð eða vinna gegn verðlækkunum. „Verðkannanirnar“ voru þannig tæki fyrir samráðsaðilana til þess að eiga í samskiptum um verð í þeim tilgangi að hamla samkeppni. Þessi háttsemi á ekkert skylt við hefðbundnar verðkannanir.

Voru verð Byko og Húsasmiðjunnar ekki aðgengileg á heimasíðum þeirra? Skiptir þá máli hvort sömu upplýsingar eru fengnar í símtölum?

Vörunúmerin sem Byko og Húsasmiðjan selja skipta tugþúsundum. Í samráði fyrirtækjanna fólst að vikulega áttu þau í samskiptum gegnum síma þar sem veittar voru upplýsingar um verð, afsláttarkjör (og eftir atvikum birgðastöðu) á sömu 105 vörum í flokki grófvara sem eiga það sameiginlegt að teljast til mikilvægustu og söluhæstu grófvara Byko og Húsasmiðjunnar. Stjórnendur fyrirtækjanna  lögðu fyrir undirmenn sína að eiga í þessum samskiptum. Ljóst er að fyrirtækin vildu ekki að þessi samskipti ættu sér stað með tölvupóstum á milli þeirra. 

Verðumhverfi Byko og Húsasmiðjunnar er flókið. Þótt hinir ýmsu vöruflokkar séu einsleitir hjá fyrirtækjunum hafa grófvörurnar til að bera tilteknar víddir, þ.e. mælingartengda eiginleika, sem geta torveldað samanburð á verði þeirra. Þannig þurfa þættir á borð við stærð, þyngd, lengd og breidd að vera þeir sömu þegar borin eru saman verð. Annars er samanburðurinn ekki marktækur. Gögn málsins sýna að það gat verið vandasamt verk fyrir sérfræðinga fyrirtækjanna að bera saman verð á einstökum tegundum grófvöru. Sökum m.a. þessa áttu Húsasmiðjan og Byko í þessum reglulegu verðsamskiptum. Var þetta verklag viðhaft til að tryggja verðsamráð í flóknu umhverfi. 

Í þessu felst að samskipti Byko og Húsasmiðjunnar tóku ekki til opinberra upplýsinga sem öllum voru aðgengilegar. Þess vegna töldu keppinautarnir nauðsynlegt að eiga í þessum beinu reglubundnu samskiptum.

Hvers vegna beinist ákvörðun Samkeppniseftirlitsins aðeins að Byko en ekki að Húsasmiðjunni?

Húsasmiðjan, bæði fyrri og núverandi eigendur, og Samkeppniseftirlitið gerðu sáttir þann 9. júlí 2014 og málinu lauk þá gagnvart Húsasmiðjunni. Í sáttinni við rekstraraðila Húsasmiðjunnar á brotatímabilinu er viðurkennt að Húsasmiðjan hafi verið þátttakandi í því ólögmæta samráði sem lýst er í ákvörðuninni. Núverandi rekstraraðilar Húsasmiðjunnar undirgengust, í annarri sátt, skilyrði í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Auk þessa greiddi eigandi Húsasmiðjunnar á brotatímabilinu sekt að upphæð 325 milljónum króna vegna brota fyrirtækisins á samkeppnislögum. 

Öll brot sem fjallað er um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 áttu sér stað áður en núverandi eigandi Húsasmiðjunnar tók við rekstri hennar.



Myndbönd

Engin grein fannst.


Staða máls

Áfrýunarnefnd samkeppnismála


Héraðsdómur


Hæstiréttur


Ákvarðanir

Ákvarðanir

Samkeppniseftirlitið annast stjórnsýslu í samkeppnismálum og undirbýr og tekur ákvarðanir í málum sem varða samkeppnislög og eftir atvikum 53. og 54. gr. EES-samningsins.


Ákvarðanir