Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Ósk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu vegna fagráðs um styrkflokkað timbur

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 15/2012
  • Dagsetning: 4/7/2012
  • Fyrirtæki:
    • Nýsköpunarmiðstöð Íslands
  • Atvinnuvegir:
    • Byggingarþjónusta
    • Framleiðsla á byggingarefnum
  • Málefni:
    • Undanþágur
  • Reifun

    Þann 30. september 2011 barst Samkeppniseftirlitinu beiðni frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands um undanþágu samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 til þess að stofna fagráð hagsmunaaðila sem fjalla átti um styrkflokkað timbur. Í erindinu sagði m.a. að markmiðið með stofnun ráðsins væri að tryggja að fram færi fagleg umræða um styrkflokkað burðarvirki úr timbri með það að leiðarljósi að tryggja að flokkun, sala, geymsla og önnur meðhöndlun væri í samræmi við gildandi staðla. Var það mat Nýsköpunarmiðstöðvarinnar að þessi leið væri sú einfaldasta til þess að tryggja gegnsætt upplýsingastreymi um hvaðan timbrið kæmi og hvort það uppfyllti lögbundna staðla.

    Innflytjendur á styrkflokkuðu timbri eru í dag Byko, Húsasmiðjan og Múrbúðin. Að mati Samkeppniseftirlitsins ber að líta til þess að fyrirtæki þessi starfa að meginstefnu til á sömu mörkuðum og hafa samanlagt yfirburðastöðu á markaði fyrir styrkflokkað timbur. Ekki verði litið fram hjá því að hér er um að ræða samstarf þriggja stærstu söluaðila á styrkflokkuðu timbri á Íslandi. Af þeim sökum telur Samkeppniseftirlitið að samstarfið geti mögulega leitt af sér neikvæð áhrif á samkeppni og sé til þess fallið að draga úr samkeppnislegu sjálfstæði viðkomandi fyrirtækja.

    Eitt af markmiðum fagráðsins átti að vera að „efla tengsl milli eftirlitsaðila, framleiðanda og söluaðila burðar¬timburs.“ Samkeppniseftirlitið telur slíkt markmið um aukin tengsl á milli keppinauta á engan hátt geta samræmst 15. gr. samkeppnislaga. Á markaði fyrir styrkflokkað timbur þar sem fáir söluaðilar keppast um markaðinn er afar varhugavert að auka tengsl milli þeirra meira en nauðsynlegt er hverju sinni. Með stofnun fagráðs sem hefur það beinlínis að markmiði að efla tengsl söluaðilanna vegna umræðu á styrkflokkuðu timbri er ljóst að það getur verið til þess fallið að samkeppni raskist. Sérstaklega þykir Samkeppniseftirlitinu varhugavert að eitt af markmiðum fagráðsins sé að keppinautar hittist og ræði um hvaðan vörur þeirra eru pantaðar. Mikil hætta er á því að viðkvæmar upplýsingar fari á milli keppinauta á fundum sem þessum sem getur orðið grundvöllur að broti gegn 10. gr. samkeppnislaga.

    Að öllu framangreindu virtu er það mat Samkeppniseftirlitsins að skilyrði 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga séu ekki uppfyllt í máli þessu og var beiðni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu því hafnað.