Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Beiðni Lásaþjónustunnar ehf. og Neyðarþjónustunnar ehf. um undanþágu frá 10. gr. samkeppnislaga vegna samnings um næturvaktir vegna útkalla

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 2/2015
  • Dagsetning: 3/2/2015
  • Fyrirtæki:
    • Lásaþjónustan ehf.
    • Neyðarþjónustan ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta
    • Ýmis þjónusta sem ekki er tilgreind annars staðar
  • Málefni:
    • Undanþágur
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið veitir Lásaþjónustunni ehf. og Neyðarþjónustunni ehf. heimild til samstarfs um skipulag neyðarþjónustu á næturnar vegna sk. lásaútkalla, með þeim hætti að aðeins annað fyrirtækið annist neyðarþjónustuna hverju sinni, eina viku í senn.

    Fyrirtækin tvö óskuðu eftir undanþágu frá 10. gr. samkeppnislaga, sem bannar samkeppnishamlandi samstarf fyrirtækja, til að skipuleggja í sameiningu næturvaktir vegna sk. lásaútkalla.

    Um er að ræða neyðarþjónustu vegna umræddra útkalla á tímabilinu frá kl. 18 til kl. 8. dag hvern, þjónustu við þá sem þurfa aðstoð við að komast inn í læst húsnæði eða læstar bifreiðar í þeirra eigu eða umsjá eftir að almennri dagvinnu lásasmiða lýkur. Óskuðu fyrirtækin eftir heimild til að skipuleggja í sameiningu vaktir þannig að aðeins annað fyrirtækið annist neyðarþjónustuna hverju sinni, eina viku í senn. Er bent á að þjónustan hafi til þessa verið rekin með tapi.

    Heimildin er bundin því skilyrði að félögin, hvort fyrir sig, notist við eigin gjaldskrár í störfum sínum og stundi virka samkeppni á öðrum sviðum sem þau starfa í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Í því samhengi skuldbinda félögin sig til þess að ekki fari fram upplýsingaskipti á milli þeirra um viðkvæm viðskiptaleg málefni, s.s. um verð, viðskiptakjör og vöru- eða þjónstuframboð.

    Undanþága þessi gildir til þriggja ára frá dagsetningu ákvörðunarinnar. Félögin geta fyrir þann tíma farið fram á framlengingu undanþágunnar. Skulu félögin þá gera Samkeppniseftirlitinu grein fyrir samstarfinu sem hér um ræðir, umfangi þess, verðþróun, afkomu af þjónustunni og þróun markaðarins að öðru leyti.