Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Almenna leigufélagsins ehf. á BK eignum ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 12/2017
  • Dagsetning: 28/3/2017
  • Fyrirtæki:
    • Almenna Leigufélagið ehf.
    • BK eignir ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta
    • Fasteignasala
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar yfirtöku Almenna leigufélagsins á BK eignum ehf. Starfsemi þessara fyrirtækja felst í fjárfestingum og útleigu á íbúðum á almennum leigumarkaði. Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til íhlutunar í samrunann á grundvelli samrunaákvæða samkeppnislaga. Eftirlitið hefur birt ákvörðun þessa efnis í dag, nr. 12/2017 Kaup Almenna leigufélagsins ehf. á BK eignum ehf.  

    Rekstraraðili hins sameinaða félags er fjármálafyrirtækið Gamma og er félagið stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu með rösklega 1.000 íbúðir í eignasafni sínu. Ennfremur á fyrirtækið nokkurn fjölda íbúða á landsbyggðinni, einkum á Suðurnesjum.  Ætla má að félagið fari með um 5-10% íbúðarhúsnæðis í almennri leigu á höfuðborgarsvæðinu og milli 10-15% á Suðurnesjum, þ.e. ef leiguíbúðir í eigu einstaklinga og minni aðila eru taldar með.  

    Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu telur Samkeppniseftirlitið rétt að vekja athygli á auknu vægi sérhæfðra leigufélaga á markaði fyrir útleigu á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Í ákvörðuninni er leitt að því líkum að fasteignafélög eigi allt að 40% íbúðarhúsnæðis í almennri útleigu á höfuðborgarsvæðinu, en aðrar eignir eru í eigu einstaklinga og minni leigufélaga.  Á Suðurnesjum eiga fasteignafélög á milli 70-80% íbúðarhúsnæðis í almennri leigu, á móti 20-30% sem er í eigu einstaklinga og minni aðila.  

    Að mati Samkeppniseftirlitsins er full ástæða þess að gefa þessari þróun sérstakan gaum. Þótt líklegt sé að lítið framboð á leiguhúsnæði og stóraukin eftirspurn ráði miklu um hækkandi fasteigna- og leiguverð nú um stundir, getur aukin samþjöppun á markaðnum leitt til minnkandi samkeppni til lengri tíma, leigutökum til tjóns. 

    Í ákvörðuninni er tekið fram að frekari samþjöppun í þessari atvinnustarfsemi muni að líkindum kalla á ítarlegar rannsóknir af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Full ástæða er hins vegar til þess fyrir önnur stjórnvöld sem að þessu koma að meta stöðuna og huga að stjórntækjum á sínum vettvangi.

Tengt efni

Fréttir og tilkynningar