Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Ósk um undanþágu frá ákvæði samkeppnislaga um bann við samstarfi keppinauta vegna samnings Capacent ehf., Ríkisútvarpsins ohf., 365 miðla ehf. og Skjásins miðla ehf. um rafrænar mælingar á fjölmiðlanotkun

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 61/2008
  • Dagsetning: 9/12/2008
  • Fyrirtæki:
    • Capacent ehf.
    • RÚV ohf.
    • 365 miðlar ehf.
    • Skjárinn miðlar ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
  • Málefni:
    • Undanþágur
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitinu barst erindi frá Capacent ehf., þar sem gert var grein fyrir samstarfi Capacent ehf., Ríkisútvarpsins ohf., 365 miðla ehf. og Skjásins miðla ehf. um rafrænar mælingar á hlustun og áhorf á útvarps- og sjónvarpsrásir aðila með svokölluðum farmælum. Í erindinu var tekið fram að liti Samkeppniseftirlitið svo á að samstarfið kæmi til með að raska samkeppni væri óskað eftir undanþágu á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga.

    Í ákvörðun sinni telur Samkeppniseftirlitið að samstarfið geti raskað samkeppni með þeim hætti að fari gegn 10. gr. samkeppnislaga, einkum á markaðnum fyrir fjölmiðlamælingar. Í því sambandi er vísað til þess að saman séu þau fyrirtæki sem í hlut eiga öflugur kaupandi á markaðnum fyrir fjölmiðlamælingar. Sá búnaður sem notaður sé til mælinganna og úrvinnslu þeirra gagna sem til verða sé dýr. Telja verði hæpið að ljósvakamiðlarnir gangi til samstarfs við annan aðila um slíkar mælingar á gildistíma samningsins, enda vandséð hvaða tilgangi slíkt myndi þjóna fyrir þá. Þá ber að hafa í huga að samkeppnisstaða þeirra keppinauta sem ekki kæmu að samstarfinu væri skert. Slíkt hefði áhrif á stöðu þeirra miðla bæði gagnvart áhorfendum/hlustendum, auglýsendum og birtingarhúsum við alla markaðssetningu. Samkeppniseftirlitið hefur þó ákveðið að veita samstarfinu tímabundna undanþágu en bindur veitingu undanþágunnar skilyrðum.

    Með vísan til þeirra skilyrða telur Samkeppniseftirlitið að allar forsendur 15. gr. sem liggja þurfi til grundvallar því að veita samstarfi aðila undanþágu frá bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga séu fyrir hendi. Skilyrðunum sé ætlað að eyða þeim vandkvæðum sem samstarfið kunni að hafa í för með sér með því m.a. að tryggja aðkomu nýrra ljósvakamiðla á markaðnum að því á sambærilegum kjörum og upphaflegir aðilar samstarfsins njóti. Ennfremur að sporna gegn því að samstarfið komi í veg fyrir samkeppni á milli ljósvakamiðlanna sem að því koma með því að setja það skilyrði að þau upplýsingaskipti sem fram megi fara á milli aðila samningsins í tengslum við samstarfið verði takmörkuð.