Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Kaupfélags Skagfirðinga svf., Kaupfélags Borgfirðinga svf. og Kaupfélags Héraðsbúa svf. o.fl. á Áburðarverksmiðjunni hf. og samruni fóðurdeildar Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Áburðarverksmiðjunnar hf. við Fóðurblönduna hf. og Bústólpa ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 35/2006
  • Dagsetning: 1/9/2006
  • Fyrirtæki:
    • Fóðurblandan hf.
    • Kaupfélag Skagfirðinga svf.
    • Kaupvélag borgfiðringa svf.
    • Kaupfélag Héraðsbúa svf.
    • Bústólpi ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Í nóvember 2005 barst Samkeppniseftirlitinu tilkynning um samruna Kaupfélags Skagfirðinga og Áburðarverksmiðjunnar við Fóðurblönduna og Bústólpa, sem átti sér stað í júní og júlí 2005. Við athugun Samkeppniseftirlitsins á samrunanum kom í ljós að í lok árs 2004 höfðu orðið viðskipti með hlutafé í Áburðarverksmiðjunni sem aldrei voru tilkynnt Samkeppniseftirlitinu. Var þar um að ræða viðskipti með hlutafé í Áburðarverksmiðjunni sem m.a. Kaupfélag Skagfirðinga, Kaupfélag Borgfirðinga og Kaupfélag Héraðsbúa komu að. Um er að ræða samruna framangreindra kaupfélaga við Áburðarverksmiðjuna í skilningi samkeppnislaga. Í ljósi ábendinga Samkeppniseftirlitsins ákváðu samrunaaðilar að afturkalla samrunatilkynninguna frá nóvember 2005 og skila nýrri tilkynningu sem tæki til allra eignatilfærslna á umræddu tímabili. Í maí 2006 barst Samkeppniseftirlitinu loks fullnægjandi samrunatilkynning um framangreinda samruna.

    Samkeppniseftirlitið telur að með samrununum skapist möguleiki á samþættingu á sölu á vörum og þjónustu samrunaaðilanna sem komi til með að styrkja stöðu hinna sameinuðu fyrirtækja á fóður- og áburðarmörkuðum.

    Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samrunarnir geti, ef ekkert verður að gert, takmarkað núverandi samkeppni og einnig möguleika nýrra aðila til þess að koma inn fóður- og áburðarmarkaði. Einnig er það mat Samkeppniseftirlitsins að samrunarnir geti leitt til samtvinnunar vara og/eða þjónustu af mismunandi vöru- og þjónustumörkuðum með tilheyrandi hömlum á samkeppni. Af þessum ástæðum er samrununum sett eftirfarandi skilyrði sem samrunaaðilar hafa sæst á að hlíta:

    1. Fóðurblandan hf. skal láta af hvers konar samstarfi við keppinauta fyrirtækisins, s.s. í tengslum við innkaup og innflutning á fóðri og fóðurefnum [...]  frá dagsetningu ákvörðunar þessarar.
    2. Fóðurblandan hf. skal grípa til aðgerða til að slíta sameiginlegu eignarhaldi félagsins og annarra á Kornhlöðunni ehf. [...]  frá dagsetningu ákvörðunar þessarar. Fóðurblandan hf. skal [...]  gera Samkeppniseftirlitinu grein fyrir niðurstöðum þeirra aðgerða.
    3. Samrunaaðilum er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á áburði að kaupendur áburðar kaupi jafnframt fóðurvörur og skilyrði fyrir kaupum á fóðurvörum að kaupendur fóðurs kaupi jafnframt áburð. Ennfremur er samrunaaðilum óheimilt að verðleggja áburð sem boðinn er með fóðurvörum eða fóðurvörur sem boðnar eru með áburði þannig að verðlagning eða verðtilboð jafngildi skilyrði um að ein tegund vöru sé keypt með annarri.
    4. Samrunaaðilum er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á áburði eða fóðri að einhver önnur vara eða þjónusta sem þeir eða tengd fyrirtæki selja eða veita fylgi með í kaupunum. Ennfremur er samrunaaðilum óheimilt að verðleggja áburð og fóðurvörur með öðrum vörum eða þjónustu tengdra fyrirtækja þannig að verðlagning tilboða jafngildi skilyrði um að ein tegund vöru eða þjónustu sé keypt með annarri.
    5. Selji kaupfélög samrunaaðila áburð eða fóður í endursölu skal viðkomandi fyrirtæki gæta jafnræðis við ákvörðun um slíka endursölu á þann hátt að keppinautum á áburðar- og fóðurmarkaði standi jafnframt til boða að selja áburð og/eða fóður í viðkomandi kaupfélagi til jafns við Áburðarverksmiðjuna hf. og Fóðurblönduna hf. og/eða Bústólpa ehf.
    6. Sé áburður seldur ásamt fóðurvörum skal verð þeirra aðgreint. Sama gildir ef tengd fyrirtæki bjóða sínar vörur eða þjónustu ásamt áburði eða fóðurvörum.
    7. Skilyrði ákvörðunar þessarar taka til samrunaaðila og allra annarra fyrirtækja sem eru og verða til innan samstæðunnar.
    8. Brot á þessum skilyrðum varðar viðurlögum samkvæmt IX. kafla samkeppnislaga.