Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Endurskoðun skilyrða ákvörðunar samkeppnisráðs nr. 20/2005, samruni FL Group hf., Bláfugls hf., og Flugflutninga ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 54/2007
  • Dagsetning: 2/10/2007
  • Fyrirtæki:
    • FL Group hf.
    • Bláfugl hf.
    • Flugflutningar ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Samgöngur og ferðamál
    • Flugþjónusta
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 20/2005 var samruna FL Group hf., Bláfugls hf. og Flugflutninga ehf. á markaði fyrir fragtflutninga með flugvélum til og frá Íslandi sett tiltekin skilyrði. Skilyrðin áttu m.a. að tryggja viðskiptalegt sjálfstæði Bláfugls og Flugflutninga og að þessi fyrirtæki gætu veitt Icelandair Cargo fulla og óskoraða samkeppni í flugflutningum. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi jafnframt tekið til skoðunar fyrir 1. júlí 2007 hvort breyttar aðstæður myndu kalla á endurskoðun á skilyrðunum. Samkeppniseftirlitið hóf því sl. vor skoðun á því hvort þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar í ákvörðun samkeppnisráðs hefðu breyst.  Samkeppniseftirlitið birti ákvörðun sína nr. 35/2007 þar sem viðhaldið var um þriggja mánaða skeið, eða til 1. október 2007, öllum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í ákvörðuninni frá árinu 2005. Þetta var gert svo unnt yrði að rannsaka núverandi aðstæður á markaðnum frekar.

    Þann 28. september 2007 tók Samkeppniseftirlitið nýja ákvörðun sem varðar skilyrðin sem sett voru á árinu 2005. Niðurstaðan í ákvörðuninni er sú að aðstæður á umræddum markaði hafi breyst á sl. árum með þeim hætti að styrkur Flugleiða-Fraktar og Bláfugls hefði aukist enn frekar frá því sem hann var á þeim tíma er samruni fyrirtækjanna var samþykktur og bæri vott um algjöra yfirburðastöðu á markaðnum. Fyrirhuguð innkoma Air Atlanta sem burðugs keppinautar á umræddum markaði hafi ekki gengið eftir en það hafi verið ein grunnforsenda þess að umræddur samruni var heimilaður. Ekki eru því taldar forsendur til að fella niður skilyrði þau sem kveðið er á um í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 20/2005. Í ákvörðuninni segir jafnframt að við rannsókn málsins hafi komið fram vísbendingar um að hugsanlega hafi verið brotið gegn skilyrðum ákvörðunar nr. 20/2005. Tekið verði til skoðunar hvort grunur um framangreint sé á rökum reistur.