19.6.2006

Samkeppniseftirlitið leggur 65 m.kr. stjórnvaldssekt á Skífuna vegna endurtekinna brota fyrirtækisins á samkeppnislögum

Í nýrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2006 er Skífan (nú Dagur Group) fundin sek um að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið þannig gegn bannákvæðum samkeppnislaga. Þetta gerði Skífan með gerð samninga við Hagkaup um sölu á hljómdiskum og tölvuleikjum, annars vegar á árinu 2003 og hins vegar á árinu 2004, sem báðir fela í sér sk. einkakaup og samkeppnishamlandi afslætti. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við að Hagkaup skuldbundu sig til að kaupa í heildsölu tiltekið hátt hlutfall af öllum umræddum vörum, eingöngu af Skífunni. Með samningunum voru keppinautar Skífunnar í heildsölu á hinum tilgreindu vörum nánast útilokaðir frá viðskiptum við Hagkaup sem er stór seljandi á m.a. hljómdiskum.

Í desember 2001 komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að Skífan hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sínu með gerð einkaupasamnings við fyrirtækið Aðföng um sölu á tónlist á geisladiskum í verslunum Hagkaupa og Bónuss. Með dómi Hæstaréttar árið 2004 var staðfest að Skífan hefði brotið gegn samkeppnilsögum með umræddum samningi og fyrirtækinu bæri að greiða 12 m. kr. sekt.

Á miðju ári 2004 tók samkeppnisráð ákvörðun vegna samruna m.a. Skífunnar og BT verslananna. Þar kemur m.a. fram að heildsölu Skífunnar væri óheimilt að gera þá kröfu til viðskiptavina sinna að tiltekið hlutfall í vöruvali þeirra í einstökum vöruflokkum afþreyingarefnis skyldi keypt í heildsölu af Skífunni.

Með því að gera þá samninga við Hagkaup sem um er fjallað í þeirri ákvörðun sem nú hefur verið tekin af Samkeppniseftirlitinu ítrekaði Skífan brot sitt á samkeppnislögum sem fjallað var um í ákvörðun samkeppnisráðs frá árinu 2001 og hæstaréttardómi frá árinu 2004. Samningarnir frá árunum 2003 og 2004 sem nú hefur verið ákvarðað um eru jafnvel umfangsmeiri og ná til fleiri vöruflokka en samningurinn sem áður hafði verið dæmdur ólögmætur. Þá braut Skífan gegn samrunaákvörðuninni frá árinu 2004 þegar fyrirtækið gerði síðari samninginn við Hagkaup.

Það er mat Samkeppniseftirlitsins að brot Skífunnar sé alvarlegt. Því þykir hæfilegt að Skífan (nú Dagur Group) greiða 65 m.kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli þessu er að finna á heimasíðu eftirlitsins.