28.6.2006

Samkeppniseftirlitið ógildir samruna Dagsbrúnar hf. og Senu ehf.

Samruninn skaðar samkeppni

Með ákvörðun nr. 22/2006 frá 27. júní  hefur Samkeppniseftirlitið ógilt kaup Dagsbrúnar á Senu en kaupin fela í sér samruna félaganna í skilningi samkeppnislaga.

Samruninn var tilkynntur til Samkeppniseftirlitsins í lok febrúar sl. og hefur stofnunin síðan þá unnið að rannsókn á honum og samkeppnislegum áhrifum hans. Sena og félög í eigu Senu starfa á ýmsum sviðum afþreyingar svo sem tölvuleikja, myndbanda og tónlistar. Samkvæmt samrunatilkynningu er Dagsbrún eignarhalds- og fjárfestingarfélag sem fjárfestir aðallega á sviði fjölmiðlunar, fjarskipta, afþreyingar og tengdra greina.
 
Það er mat Samkeppniseftirlitsins að kaup Dagsbrúnar á Senu styrki markaðsráðandi stöðu beggja félaganna á ýmsum mörkuðum fjölmiðlunar og afþreyingar. Þá telur Samkeppniseftirlitið að í krafti þessarar stöðu geti félögin takmarkað samkeppni og hagað verðlagningu sinni, viðskiptakjörum og þjónustu án þess að taka tillit til keppinauta sinna og neytenda.

Þá telur Samkeppniseftirlitið að Baugur Group hf. fari í skilningi samkeppnislaga með yfirráð í Dagsbrún í ljósi hlutafjáreignar sinnar og tengsla við aðra stóra hluthafa í félaginu. Jafnframt því fer Baugur með yfirráð í Högum hf. Sena og Hagar starfa að hluta til á tengdum mörkuðum, þ.e. einkum heildsölu og smásölu á tónlist á geisladiskum, DVD-myndum og tölvuleikjum.  Samkeppnisleg áhrif vegna þessara tengsla komu því einnig til skoðunar.

Samkeppniseftirlitið tók til athugunar hvort unnt væri að heimila samrunann með skilyrðum og leitaði eftir tillögum samrunaaðila í því efni. Ekki reyndust forsendur til að samþykkja samrunann með skilyrðum. Að mati Samkeppniseftirlitsins var ógilding samruna Dagsbrúnar og Senu þar af leiðandi eina færa leiðin til að komast hjá þeim skaða fyrir samkeppni sem leiða myndi af samrunanum á þeim mörkuðum þar sem áhrifa hans gætir.  

Markaðir sem samruninn hefur áhrif á
Sá samruni sem nú hefur verið ógiltur hefði að mati Samkeppniseftirlitsins haft áhrif á samkeppni á eftirtöldum mörkuðum:

  • Markaðnum fyrir áskriftarsjónvarp (365 ljósvakamiðlar sem reka t.d. sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 og Sýn)
  • Markaðnum fyrir heildsölu- og smásöludreifingu á tónlist á geisladiskum (t.d. Sena og Hagkaup)
  • Markaðnum fyrir heildsölu- og smásöludreifingu á tónlist á netinu (t.d. tónlist.is)
  • Markaðnum fyrir heildsölu- og smásöludreifingu á DVD-myndum (t.d. Sena og Hagkaup)
  • Markaðnum fyrir heildsölu- og smásöludreifingu á tölvuleikjum (t.d. Sena og Hagkaup)
  • Markaðnum fyrir efniskaup (t.d. einkakaupasamningar við framleiðendur á mikilvægu  sjónvarpsefni og yfirráð yfir efni fyrir farsíma)
  • Markaðnum fyrir kvikmyndasýningar í kvikmyndahúsum (t.d. Smárabíó og Regnboginn).

Dagsbrún og Sena hafa sterka stöðu á öllum þessum mörkuðum og ráðandi stöðu á nokkrum þeirra. Á mörkuðum fyrir áskriftarsjónvarp, efniskaup, heildsölu á tónlist á geisladiskum, heildsölu- og smásöludreifingu á tónlist á netinu og heildsöludreifingu á tölvuleikjum leiðir samruni Dagsbrúnar og Senu til aukinna markaðsyfirráða og hefur skaða fyrir samkeppni eins og áður segir.

Um forsendur og röksemdir ákvörðunarinnar vísast að öðru leyti til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 22/2006.