13.10.2006

Fréttatilkynning - Samkeppnisstaða Mjólku óviðunandi

  • Samkeppniseftirlitið beinir tilmælum til landbúnaðarráðherra um að hann beiti sér fyrir breytingum á ákvæðum búvörulaga sem hindra samkeppni og mismuna fyrirtækjum í mjólkuriðnaði og beiti sér fyrir því að fella niður tolla á mjólkurdufti í því skyni að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði.
  • Samkeppniseftirlitið telur Osta- og smjörsöluna sf. hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart Mjólku ehf. og þannig brotið gegn samkeppnislögum.

Brot Osta- og smjörsölunnar á samkeppnislögum
Þegar Mjólka hóf störf á síðasta ári með framleiðslu á fetaosti þurfti fyrirtækið að kaupa mjólkurduft hjá Osta- og smjörsölunni. Tvenns konar verðlagning hefur verið á mjólkurdufti, annars vegar hið hærra verð til fyrirtækja í mjólkuriðnaði og hins vegar lægra verð til fyrirtækja í annarri matvælaframleiðslu.  Mjólku var gert að greiða hið hærra verð fyrir duftið, en annað fyrirtæki í ostaframleiðslu, Ostahúsið, hafði hins vegar verið látið greiða hið lægra verð vegna sinnar framleiðslu um margra ára skeið. Þetta varð tilefni þess að Mjólka kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir mismunun Osta- og smjörsölunnar. Osta- og smjörsalan brást við með þeim hætti að hækka verðið á mjólkurdufti til Ostahússins og bar við mistökum starfsmanna fyrirtækisins. Með því taldi fyrirtækið að jöfnuð væri samkeppnisstaða Mjólku og Ostahússins.

Osta- og smjörsalan er í einokunarstöðu við sölu á mjólkurdufti hér á landi, enda koma háir tollar á mjólkurdufti í reynd í veg fyrir innflutning á duftinu. Mjólka verður af þessum sökum að kaupa duft af Osta- og smjörsölunni, en það fyrirtæki ásamt eigendum þess (mjólkursamlögin) eru helstu keppinautar Mjólku. Vegna stöðu Osta- og smjörsölunnar sem hér er lýst hvílir sérstaklega rík skylda á fyrirtækinu að mismuna ekki viðskiptavinum sínum. Með vísan til þess telur Samkeppniseftirlitið að Osta- og smjörsalan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið seldi Mjólku annars vegar og Ostahúsinu hins vegar mjólkurduft á misháu verði. Þannig braut Osta- og smjörsalan gegn samkeppnislögum.

Opinberar samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði – álit til landbúnaðarráðherra
Fyrrgreind kvörtun Mjólku varð Samkeppniseftirlitinu tilefni til að huga almennt að þeim samkeppnishindrunum sem fyrirtækið býr við vegna lagaumhverfis á þessum markaði. Fyrr er getið innflutningstolla á mjólkurdufti sem í raun gera Mjólku ókleift að kaupa það frá öðrum en keppinauti sínum, Osta- og smjörsölunni. Osta- og smjörsalan er í eigu mjólkursamlaganna sem einnig eru keppinautar Mjólku. Með breytingum sem gerðar voru á búvörulögum á árinu 2004 var mjólkursamlögum gert kleift að hafa með sér verðsamráð og viðhafa markaðsskiptingu og þau þannig undanþegin samkeppnislögum. Verðsamráð og markaðsskipting keppinauta eru mjög samkeppnishamlandi athafnir og varða önnur fyrirtæki en í mjólkuriðnaði hér landi og stjórnendur þeirra viðurlögum. Með lagabreytingunni 2004 var samruni keppinauta í mjólkuriðnaði einnig undanþeginn samkeppnislögum jafnvel þó hann raski samkeppni.
Mjólka stendur utan Samtaka afurðarstöðva í mjólkuriðnaði. Framangreindar lagabreytingar gera mjólkursamlögum innan þessara samtaka kleift að hafa með sér samráð gegn tilraunum Mjólku og eftir atvikum annarra nýrra keppinauta til að ná fótfestu á markaðnum. Framkvæmd búvörulaga leiðir einnig til þess að þessir keppinautar fá í hendur viðskiptaleyndarmál frá Mjólku. Því til viðbótar er Mjólku gert að greiða tiltekið gjald, verðtilfærslugjald, sem nýtt er til hagsbóta keppinautunum fyrirtækisins.

Framangreindar breytingar á búvörulögum frá árinu 2004 veita mjólkursamlögum mun víðtækari undanþágu frá samkeppnisreglum en tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Tilgangur þessara lagabreytinga var m.a. að gera mjólkursamlögum kleift að mæta samkeppni erlendis frá. Í áliti Samkeppniseftirlitsins er það rökstutt að þær undanþágur frá samkeppnislögum sem mjólkursamlög njóta muni skaða samkeppnishæfni þeirra og vinna gegn því að þau geti mætt erlendri samkeppni, þegar og ef hennar muni gæta hér á landi á þessu sviði.

Koma Mjólku inn á markaðinn fyrir vinnslu mjólkurafurða hefur leitt til verðlækkunar á þeim vöruflokkum sem Mjólka framleiðir. Hún hefur einnig leitt til þess að bændur sem framleiða mjólk utan greiðslumarks fá nú hærra verð en áður fyrir mjólkina. Þannig hefur sá vísir að samkeppni sem starfsemi Mjólku hefur haft í för með sér gagnast bæði neytendum og bændum. Í ljósi þess beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að hann beiti sér fyrir afnámi opinberra samkeppnishindrana í mjólkuriðnaði svo neytendur og bændur geti notið ávaxta samkeppninnar í þeirri grein.

Tilmæli Samkeppniseftirlitsins til landbúnaðarráðherra lúta að því að ákvæði í búvörulögum sem heimila samkeppnishamlandi samráð mjólkursamlaga og samruna þeirra verði afnumin. Einnig að verð- og magntollar á mjólkurdufti verði afnumdir í því skyni að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði. Þá er því beint til ráðherra að jöfnuð verði að öðru leyti samkeppnisstaða afurðastöðva sem starfa utan Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði gagnvart þeim sem starfa innan samtakanna. Loks er athygli landbúnaðarráðherra vakin á því að enn eru í gildi tilmæli sem fram komu í áliti samkeppnisráðs frá árinu 2002 um að ráðherra beiti sér fyrir því að heildsöluverðlagning á búvöru verði gefin frjáls.

Niðurlag
Samkeppniseftirlitið hefur lýst því yfir að samkeppnisstaða á matvörumarkaði sé á meðal þeirra verkefna sem mest áhersla verði lögð á næstu misseri.  Nefna má í þessu sambandi að eftirlitið kynnti í desember s.l. norræna skýrslu um samkeppnisaðstæður á matvörumarkaði og hratt með því að stað miklum umræðum um matvöruverð og matvörumarkaðinn á Íslandi. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og álit til landbúnaðarráðherra, sem kynnt eru í þessari fréttatilkynningu, falla vel að áherslum eftirlitsins og eru til þess fallin að stuðla að lækkuðu matarverði.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 39/2006 Erindi Mjólku ehf. vegna misnotkunar Osta- og smjörsölunnar sf. á markaðsráðandi stöðu og Álit Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2006 Opinberar samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði,