17.10.2011

Tvær ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins vegna samruna á fjármálamarkaði

  • Kaup Landsbankans á eignarhlut í Verdis ógilt
  • Ekki forsendur til að aðhafast vegna samruna Íslandsbanka og Byrs

Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið tvær ákvarðanir vegna samruna fyrirtækja á fjármálamarkaði. Annars vegar er um að ræða ógildingu á samruna sem felst í kaupum Landsbankans á eignarhlut í Verdis (áður Arion verðbréfavarsla) og hins vegar ákvörðun vegna yfirtöku Íslandsbanka á Byr.

Kaup Landsbankans á eignarhlut í Verdis ógilt

Arion_Landsbank_VerdisVerdis er fyrirtæki sem er alfarið í eigu eigu Arion banka og starfar fyrirtækið á markaðnum fyrir verðbréfaumsýslu. Verdis annast  þannig vörslu og uppgjör verðbréfa auk annarrar bakvinnslu fyrir Arion banka og fleiri fjármálafyrirtæki. Með kaupum á eignarhlut í Verdis munu Landsbankinn og Arion banki hafa sameiginleg yfirráð yfir Verdis og fulltrúar bankanna munu sitja saman í stjórn fyrirtækisins. Samruninn mun einnig leiða til þess að Landsbankinn hættir eigin verðbréfaumsýslu og mun þess í stað þiggja þá þjónustu frá Verdis. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er rökstutt að þetta  þýði að Verdis muni njóta yfirburða á markaðnum og verða markaðsráðandi  í verðbréfaumsýslu. Samruninn raski að þessu leyti samkeppni með alvarlegum hætti.

Landsbankinn og Arion banki eru umsvifamiklir keppinautar á markaðnum fyrir almenna verðbréfaþjónustu en sá markaður er nátengdur þeim markaði sem Verdis starfar á. Þá eru þessir bankar, ásamt Íslandsbanka, stærstu keppinautarnir á almennum viðskiptabankamarkaði. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem gefin var út fyrr á þessu ári, er bent á að mikil fákeppni og samþjöppun sé á íslenskum fjármálamarkaði. Skortur á samkeppni og samkeppnishömlur á þeim markaði geti haft mjög neikvæðar afleiðingar á íslenskt atvinnulíf og neytendur. Það sé því forgangsverkefni að vinna gegn samkeppnishamlandi samvinnu banka sem geti t.d. falist í sameiginlegu eignarhaldi þeirra á þjónustufyrirtækjum. Bent er á að á slíkum fákeppnismörkuðum sé samkeppnislegt sjálfstæði keppinauta sérstaklega mikilvægt.

Með samrunanum myndast í Verdis nýr vettvangur fyrir upplýsingaskipti og samvinnu milli Landsbankans og Arion banka sem skaðað getur samkeppni á þeim fjármálamörkuðum sem bankarnir starfa á. Samruninn fer því einnig að þessu leyti gegn samkeppnislögum.

Strax í upphafi þessa máls óskuðu samrunaðilar eftir því að fá að leggja fram tillögur að skilyrðum sem gætu komið í veg fyrir að samruninn  raskaði samkeppni. Þær tillögur eru hins vegar ekki fullnægjandi þar sem þær leysa ekki þau samkeppnislegu vandkvæði sem tengjast sameiginlegum yfirráðum Landsbankans og Arion banka yfir Verdis. Fyrirtækin sem standa að samrunanum hafa byggt á því að hann feli í sér umtalsverða hagræðingu. Samkvæmt samkeppnislögum er unnt að horfa til hagræðingar ef fyrirtæki m.a. sanna að hagræðingin skili sér til neytenda. Samrunaðilum tókst ekki að sanna þetta og er samruninn sökum þessa alls því ógiltur.

Sjá nánar ákvörðun nr. 34/2011.


Ekki forsendur til að aðhafast vegna samruna Íslandsbanka og Byrs

byr_rgb_merkiSamkeppniseftirlitið hefur einnig haft til meðferðar yfirtöku Íslandsbanka á Byr en fyrirtækin eru keppinautar á fjármálamarkaði. Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að sterkar vísbendingar séu um að þessi samruni muni auka skaðlega fákeppni. Samrunaaðilar hafa hins vegar borið því við að heimila yrði samrunann á vegna reglna samkeppnisréttarins um fyrirtæki á fallanda fæti (e. failing firm defence). Er í því sambandi vísað til alvarlegrar stöðu Byrs. Viðurkennt er að slík aðstaða fyrirtækis geti leitt til þess að heimila beri samruna. Ástæðan er sú að í slíkum tilvikum stafa samkeppnishömlurnar ekki af samrunanum sem slíkum heldur af erfiðri stöðu hins yfirtekna fyrirtækis.

Sökum þessa hefur Samkeppniseftirlitið framkvæmt viðamikla rannsókn á stöðu Byrs, hvernig staðið var að sölu fyrirtækisins og hvort fyrir hendi hafi verið aðrir raunhæfir möguleikar á sölu Byrs sem væru hagfelldari fyrir samkeppni. Hefur eftirlitið í því sambandi aflað gagna og sjónarmiða frá m.a. innlendum og erlendum fyrirtækjum sem sýndu áhuga á að kaupa Byr og leitað viðhorfa Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytsins.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að fjárhagsstaða Byrs sé mjög slæm og liggur fyrir að kröfur laga um eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja séu ekki uppfylltar. Eftirlitið telur að söluferli Byrs hafi verið tilteknum annmörkum háð en að raunhæfir möguleikar á annarri sölu en til Íslandsbanka hafi ekki verið fyrir hendi. Þá skiptir hér umtalsverðu máli að upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu sýna að ef þessi samruni gengi ekki eftir myndi  stofnunin beita heimildum sínum og færa inn- og útlán Byrs til einhvers stóru viðskiptabankanna. Af þessu öllu leiðir að skilyrði um fyrirtæki á fallanda fæti eru uppfyllt og Samkeppniseftirlitið hefur því ekki heimildir að lögum til þess að hafa frekari afskipti af samrunanum.

Samkeppniseftirlitið er þeirrar skoðunar að þessi óhjákvæmilega niðurstaða skaði samkeppni þar sem hún eykur samþjöppun og fákeppni. Það er því afar brýnt að Samkeppniseftirlitið og aðrir hlutaðeigandi aðilar beiti sér fyrir því að á milli viðskiptabankanna þriggja eigi sér ekki stað nein  samvinna eða samskipti sem skaðar samkeppni viðskiptalífinu og almenningi til tjóns.

Sjá nánar ákvörðun nr. 33/2011.