8.10.2012

Samkeppniseftirlitið ógildir samruna sem raskað hefði samkeppni á mörkuðum fyrir sölu lækningatækja

SýnatakaSamkeppniseftirlitið hefur í dag ógilt samruna sem felst í kaupum Veritas Capital hf. á Fastusi ehf. Veritas Capital er móðurfélag félaga sem reka starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu. Veritas rekur m.a. dótturfélögin Medor ehf., sem selur lækningatæki, Vistor sem selur m.a. lyf í heildsölu og Distica ehf. sem sérhæfir sig í dreifingu á lyfjum og öðrum vörum fyrir heilbrigðisþjónustu. Fastus selur lækningatæki, auk rekstrarvara fyrir hótel- og veitingahúsageirann.
 
Í umræddum viðskiptum felst þannig samruni milli keppinautanna Medor og Fastusar. Hefur sá samruni áhrif á markaði fyrir sölu á lækningatækjum til sjúkrahúsa og annarra aðila í heilbrigðisþjónustu. Undir hugtakið lækningatæki falla ýmis konar vélar, áhöld, efni og einota vörur sem notaðar eru m.a. við að greina, meðhöndla og lina sjúkdóma í mönnum. Nefna má sem dæmi endurlífgunartæki, myndgreiningartæki, rannsóknartæki, skurðstofutæki, sjúkrarúm og einnota nálar.
 
Við samrunann verður til fyrirtæki sem öðlast markaðráðandi stöðu í sölu á flóknum lækningatækjum. Hefur sameinað fyrirtæki meira en tvöfalda hlutdeild miðað við næst stærsta keppinaut þess og nýtur fjárhagslegra yfirburða. Sameinuð myndu fyrirtækin hafa afar sterka stöðu á tengdum sviðum, t.a.m. í dreifingu lyfja og annarra heilbrigðisvara en þar hefur Distica um 70% markaðshlutdeild. Einnig horfir Samkeppniseftirlitið til þess að fyrir hendi eru verulegar aðgangshindranir fyrir nýja aðila sem vilja hasla sér völl á markaði fyrir innflutning og sölu lækningatækja. Þá leiddi ítarleg rannsókn eftirlitsins til þeirrar niðurstöðu að Landspítalinn og aðrir viðskiptavinir búi ekki yfir nægjanlegum kaupendastyrk til þess að draga úr mætti hins sameinaða fyrirtækis. Samruninn er því talinn raska samkeppni með alvarlegum hætti á þýðingarmiklum markaði.
 
Samrunaaðilar lögðu fram tillögur að skilyrðum til þess að vinna gegn þeim samkeppnishömlum sem Samkeppniseftirlitið telur stafa af samrunanum. Eins og rökstutt er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eru þessar tillögur ófullnægjandi og því ógildir eftirlitið samrunann með ákvörðun sinni í dag.

Samkeppni brýn vegna almannahagsmuna

Það er mat Samkeppniseftirlitsins að markaðir þessa máls séu mikilvægir fyrir almenning. Þó að kaupendur vörunnar séu yfirleitt opinberir aðilar er það á endanum almenningur sem bæði nýtur heilbrigðisþjónustunnar og greiðir þann kostnað sem af hlýst með einum eða öðrum hætti. Að undanförnu hefur komið fram að tækjabúnaður Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana í landinu sé í mörgum tilfellum úr sér genginn vegna sparnaðar í tækjakaupum undanfarin ár, ekki síst í kjölfar efnahagshrunsins. Áætlað er að spítalinn verði að endurnýja tækjabúnað sinn umtalsvert á næstu árum auk þess sem bygging nýs Landspítala mun hafa í för með sér töluverð útgjöld á þessu sviði. Virk samkeppni í viðskiptum með lækningatæki getur því varðað hagsmuni skattborgaranna  sem nema háum fjárhæðum.

Sjá nánar ákvörðun nr. 23/2012 (pdf skjal - 114 blaðsíður).