18.3.2013

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda

Íslenskt fiskiskip í höfnSamkeppniseftirlitinu barst erindi þann 25. maí 2011 frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ). Í erindinu var þess krafist að Samkeppniseftirlitið myndi kveða á um fjárhaglslegan aðskilnað í samræmi við 14. gr. samkeppnislaga á milli útgerðar og fiskvinnslu fyrirtækja sem bæði stunda veiðar og vinnslu sjávarafla. Í erindinu var einnig kvartað undan meintri misnotkun tiltekinna útgerðarfyrirtækja á markaðsráðandi stöðu og meintu ólögmætu samráði sömu fyrirtækja, sbr. 10. og 11. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið lauk málinu þann 19. nóvember 2012 með ákvörðun nr. 28/2012 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til íhlutunar í tilefni af erindi SFÚ. Rannsókn málsins varð hins vegar til þess að Samkeppniseftirlitið beindi áliti nr. 2/2012 til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þar sem þeim tilmælum var beint til ráðherra að dregið yrði úr þeim samkeppnislegu vandamálum sem leiða af lagaumhverfi sjávarútvegs á Íslandi.

SFÚ felldu sig ekki við þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að ekki væru forsendur til þess að kveða á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útgerðar- og vinnsluhluta útgerðarfyrirtækja sem bæði stunda veiðar og vinnslu sjávarafla og kærðu því þann hluta ákvörðunarinnar sem sneri að 14. gr. samkeppnislaga til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur nú staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu í máli nr. 7/2012 að veiðileyfi og aflaheimildir samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða teljist ekki opinbert einkaleyfi eða vernd í skilningi 14. gr. samkeppnislaga og því séu ekki forsendur til þess að beita fjárhagslegum aðskilnaði í málinu. Áfrýjunarnefndin taldi ekki heldur að Samkeppniseftirlitið hafi brotið gegn stjórnsýslulögum, líkt og SFÚ hélt fram.