25.7.2013

Fjárveitingar til eftirlitsstofnanna

KrónupeningarÍ kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var fjallað um að kostnaður af rekstri eftirlitsstofnana hefði aukist um mörg hundruð prósent á síðustu árum og tekið viðtal við Orra Hauksson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins vegna málsins. Samkeppniseftirlitið var ein þeirra stofnana sem fjallað var um. Umfjöllun um sama efni birtist í Fréttablaðinu í dag.

Af þessu tilefni er rétt að vekja athygli á því að fjárveitingar til hefðbundinna verkefna Samkeppniseftirlitsins hafa verið skornar niður um 20% að raungildi frá hruni. Eru þá ekki taldar með lítilsháttar fjárveitingar til nýrra verkefna sem Samkeppniseftirlitinu hafa verið falin. Niðurskurðurinn nemur um 25% ef ekki eru taldar með tímabundnar fjárveitingar til næstu tveggja ára.

Frá hruni hefur Samkeppniseftirlitið ítrekað fært rök fyrir mikilvægi þess að tekið yrði á erfiðum aðstæðum atvinnulífs og neytenda með því að auka fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins. Viðurkennt er að aðgerðir til að efla samkeppni eru einföld og ódýr leið til þess að bregðast við efnahagskreppu, byggja upp öfluga atvinnustarfsemi og renna þannig stoðum undir öflugt efnahagslíf. Um leið er spornað við því að tjóni af efnahagshruni sé velt yfir á herðar almennings í formi hærra verðs og verri gæða vöru og þjónustu. Samkeppniseftirlitið hefur jafnframt sýnt fram á aukið álag í starfseminni, sem stafar af aðstæðum í atvinnulífinu.