1.4.2014

Samkeppniseftirlitið birtir ákvörðun vegna kaupa Framtakssjóðsins SF V slhf. á tilteknum félögum í eigu Norvikur hf.

Merki Norvik ehf.Þann 16. janúar sl. gerði Samkeppniseftirlitið sátt við samrunaaðila vegna kaupa SF V slhf., eignarhaldsfélags og dótturfélags SF V, Bekei hf. (Nafni Bekei var síðar breytt í Festi hf.), á tilteknum félögum í eigu Norvikur hf. SF V er m.a. í eigu lífeyrissjóða, Arion banka og annarra fjárfesta, með rekstrarsamning við Stefni hf., dótturfélag Arion banka hf. Í ákvörðun sem birt hefur verið á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins gerir eftirlitið grein fyrir forsendum ákvörðunarinnar og þeim skilyrðum sem samrunaaðilar féllust á að hlíta vegna kaupanna. Hin samkeppnislegu vandamál sem leitt geta af samrunanum geta m.a. falist í eftirfarandi:

  • Hættu á að eignarhlutir hluthafa SF V í keppinautum leiði af sér óæskilega hvata sem draga úr samkeppni á þeim mörkuðum sem dótturfélögin starfa á.
  • Hættu á að eignatengsl aðila sem eru tengdir viðskiptunum leiði af sér blokkarmyndun og útiloki þar með keppinauta frá mikilvægum viðskiptum eða leiði til þess að félög innan blokkarinnar njóti viðskiptakjara sem ætla megi að ótengdur aðili myndi ekki njóta.
  • Hættu á að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar berist á milli aðila sem eru tengdir viðskiptunum og fyrirtækja tengdum þeim.
  • Hættu á myndum óæskilegra stjórnunartengsla á milli dótturfélaganna, keppinauta og viðskiptavina þeirra.

Vegna þessa er t.d. sett skilyrði sem tryggja eiga að hin keyptu félög verði rekin Arion banka, Stefni og öðrum tengdum aðilum. Sjá nánar ákvörðun nr. 7/2014. Það var mat Samkeppniseftirlitsins að nauðsynlegt væri að grípa til íhlutunar í málinu. 

Undanfarið og jafnframt í tengslum við rannsókn þessa máls hefur Samkeppniseftirlitið kannað með almennum hætti hvernig eignarhald á atvinnufyrirtækjum hefur þróast í kjölfar bankahrunsins. Í þessu samhengi má benda á skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2013 Er týndi áratugurinn framundan?Öflug samkeppni læknar stöðnun. Þessi athugun hefur leitt í ljós að aðkoma lífeyrissjóða að eignarhaldi fyrirtækja hefur vaxið hröðum skrefum á meðan eignarhald banka og skilanefnda á rekstrarfélögum hefur dregist saman. Minnkandi eignarhlutur banka í samkeppnisfyrirtækjum er jákvæður en vaxandi eignarhlutur lífeyrissjóða, m.a. í gegnum framtakssjóði, kallar á umræðu um aðkomu þeirra að slíku eignarhaldi og með hvaða hætti nauðsynlegt er að standa vörð um virka samkeppni við þær aðstæður. Að mati Samkeppniseftirlitsins er hætta á því að óskýrt eignarhald og takmarkað eigendaaðhald í atvinnufyrirtækjum geti leitt til röskunar á samkeppni. Samkeppniseftirlitið telur ljóst í þessu samhengi að umsvif lífeyrissjóða í fjárfestingum í atvinnufyrirtækjum komi til með að hafa afgerandi áhrif á þróun samkeppnismarkaða á næstu árum.