22.9.2014

Samkeppniseftirlitið leggur á 370 mkr. sekt á Mjólkursamsöluna fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu

  • Mjólkursamsalan (MS) beitti smærri keppinauta samkeppnishamlandi mismunun með því að selja þeim hrámjólk á 17% hærra verði en fyrirtæki sem eru tengd MS greiddu.
  • Verðmunurinn var til þess fallinn að veikja Mjólkurbúið Kú, sem er lítil mjólkurafurðastöð í einkaeigu, og stuðla að sölu á fyrirtækinu Mjólku til Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á árinu 2009.

Mynd: MjólkurglasÍ upphafi árs 2013 hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn á ætluðum brotum Mjólkursamsölunnar ehf. (MS) á banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Tildrög rannsóknarinnar voru að Mjólkurbúið Kú ehf. (Mjólkurbúið) kvartaði yfir því að þurfa að greiða MS 17% hærra verð fyrir óunna mjólk til vinnslu, sk. hrámjólk, en keppinautar Mjólkurbúsins sem eru tengdir MS þyrftu að greiða. Mjólkurbúið er í eigu Ólafs Magnússonar o.fl., en hann stofnaði einnig fyrirtækið Mjólku ehf. sem hóf samkeppni við MS árið 2005. Í lok árs 2009 keypti Kaupfélag Skagfirðinga (KS) Mjólku ehf. og hefur rekið hana síðan. Í málinu var einnig tekinn til skoðunar sambærilegur verðmunur á hrámjólk frá MS, annars vegar til Mjólku á meðan fyrirtækið var í eigu Ólafs Magnússonar o.fl., og hins vegar eftir að það hafði verið selt til KS. Mjólkurbúið hefur talið að með þessum mun á hráefnisverði til vinnsluaðila væri MS að misnota markaðsráðandi stöðu sína gagnvart minni keppinautum.

Með breytingum á búvörulögum á árinu 2004 var ákvæðum samkeppnislaga sem ætlað er að vinna gegn samkeppnishamlandi samruna og samráði vikið til hliðar á mjólkurmarkaði. Fyrir breytingarnar voru starfandi fimm mjólkurafurðastöðvar hér á landi en samrunar sem ekki hefur verið unnt að hlutast til um á grundvelli samkeppnislaga hafa leitt til því sem næst einokunarstöðu MS og tengdra félaga í vinnslu og heildsöludreifingu á mjólkurafurðum. Á grundvelli undanþágu frá banni samkeppnislaga við samráði hafa KS og MS með sér mikið samstarf í framleiðslu og sölu á mjólkurafurðum og auk þess á KS 10% hlut í MS. Af hálfu MS er sagt að  líta beri á MS, KS og Mjólku undir eignarhaldi KS sem eina „viðskiptalega heild.“ Ekki leikur vafi á því að MS er í markaðsráðandi stöðu.

Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að MS hefur mismunað Mjólkurbúinu og áður Mjólku á meðan hún var í eigu fyrri eigenda, með því að selja fyrirtækjunum ógerilseydda hrámjólk á allt að 17% hærra verði en gilti gagnvart tengdum aðilum, þ.e. KS og síðar Mjólku þegar hún hafði verið seld KS. Var þessi mismunun í hráefnisverði til þess fallin að veikja Mjólku sem keppinaut MS og tengdra félaga og stuðla að sölu félagsins til KS. Eftir að Mjólka komst í eigu KS fékk félagið hrámjólk á allt öðru og lægra verði en áður frá MS, en þegar félagið var keppinautur MS og KS á mjólkurvörumarkaði.

MjólkurvörurHrámjólk er grundvallar hráefni til vinnslu mjólkurafurða og hefur mismunun í verði hennar augljós áhrif á möguleika þess fyrirtækis sem sætir henni til þess að keppa. Umræddir keppinautar MS þurftu ekki aðeins að sæta því að markaðsráðandi fyrirtæki beitti þá mismunun í verði heldur einnig að félög tengd MS fengju þetta hráefni á mun lægra verði sem var til þess fallið að veita þeim verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Með þessu móti var geta þeirra til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti og markaðsráðandi staða MS samstæðunnar varin. Er það til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda.

MS hefur borið því við að breytingarnar á búvörulögum 2004 hafi þau áhrif að umrædd verðmismunun geti ekki falið í sér brot á samkeppnislögum. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er rökstutt að það hafi ekki verið tilgangur löggjafans að markaðsráðandi afurðastöðvar í mjólkuriðnaði væru undanþegnar banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Gilda því sömu reglur um MS að þessu leyti og gilda gagnvart markaðsráðandi fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum.   

Er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að MS hafi með alvarlegum hætti brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Ákvæðið leggur m.a. bann við því að markaðsráðandi fyrirtæki mismuni viðskiptavinum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt.

Telur Samkeppniseftirlitið hæfilegt að leggja 370 milljóna króna kr. í sekt á MS vegna þessa brots. Brotið er í eðli sínu alvarlegt þar sem það tengist mikilvægum neysluvörum og hefur varað í langan tíma, eða a.m.k. frá árinu 2008 til ársloka 2013. Mjólkurvörur eru stór hluti af matarinnkaupum heimila í landinu. Horft var einnig til þess að um ítrekað brot er að ræða. Á árinu 2006 braut einn forvera MS, Osta- og smörsalan, með samskonar hætti gagnvart Mjólku á meðan hún var í eigu fyrri eigenda, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 8/2006. Í því máli var ekki lögð á sekt en það er talið nauðsynlegt í þessu máli til að vinna gegn því að frekari brot eigi sér stað á þessum mikilvæga markaði.

Sjá ákvörðun nr 26/2014.