30.9.2014

Geta einstaklingar borið ábyrgð vegna brota á samkeppnislögum?

Í gær var í fjölmiðlum sagt frá ályktun Neytendasamtakanna í tilefni af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 26/2014, Misnotkun Mjólkursamsölunnar ehf. á markaðsráðandi stöðu sinni. Í ályktuninni er m.a. skorað á samkeppnisyfirvöld að beita refsiákvæðum samkeppnislaga gagnvart einstaklingum í auknum mæli.

Á heimasíðu eftirlitsins, undir liðnum Algengar spurningar - Ólögmætt samráð, má finna svar við spurningunni um hvort einstaklingar geti borið ábyrgð vegna brota á samkeppnislögum. Svarið má einnig finna hér fyrir neðan.

Árið 2007 var refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum afmörkuð nánar en áður gilti. Með breytingunum var refsiábyrgð einstaklinga gerð skýrari og nánar fjallað um verkaskiptinu og samvinnu samkeppnisyfirvalda og lögreglu við rannsókn brota gegn samkeppnislögum.

Geta einstaklingar borið ábyrgð vegna brota á samkeppnislögum?

Refsiábyrgð einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum er afmörkuð við brot sem fela í sér ólögmætt samráð en þau eru talin alvarlegustu samkeppnislagabrotin. Ástæða þess er sú að í málum þar sem grunur leikur á samráði eru miklir hagsmunir í húfi fyrir neytendur og atvinnulífið enda getur ólögmætt samráð fyrirtækja haft í för með sér verulegan efnahagslega skaða. Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum getur einstaklingur, þ.e. starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sætt sektum eða fangelsi allt að sex árum. Nánar tiltekið tekur refsiábyrgðin til samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör, samráðs um skiptingu á mörkuðum og takmörkun á framleiðslu, samráðs um gerð tilboða, samráðs um að eiga ekki viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða neytendur og svo til upplýsingagjafar um þessi tilteknu atriði. Þá heyrir hér einnig undir samráð fyrirtækja sem hefur það að markmiði að fyrirtækin keppi ekki sín á milli.

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu getur ekki varðað einstaklingum refsingu með sama hætti. Um þetta sagði í greinargerð með frumvarpi:

Það er staðreynd að misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sbr. 11. gr. samkeppnislaga, getur haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir samfélagið og að því standa rök til þess að misnotkun á markaðsráðandi stöðu geti varðað refsingu með sama hætti og ólögmætt samráð. Hins vegar er það talið geta valdið vandkvæðum við beitingu slíks refsiákvæðis að framkvæma getur þurft flókna hagfræðilega greiningu til að komast að raun um hvort viðkomandi fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Þá kann í undantekningatilvikum að vera vandasamt fyrir fyrirtæki að gera sér grein fyrir því hvort það hafi markaðráðandi stöðu í skilningi 11. gr. samkeppnislaga. Jafnframt ber að hafa í huga að í 11. gr. laganna er lagt bann við hegðun sem getur verið eðlileg og jafnvel samkeppnishvetjandi ef um er að tefla fyrirtæki sem ekki er í markaðsráðandi stöðu. Á grundvelli þessa þykir ekki ástæða til þess að leggja refsingu við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Er niðurstaðan í samræmi við samkeppnisrétt flestra vestrænna ríkja sem mæla fyrir um refsingar við samkeppnisbrotum, t.d. Bretland, Noreg og Bandaríkin.

Samkeppnislagabrot einstaklinga sæta einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Samkeppniseftirlitið metur í hvert sinn með tilliti til grófleika brots hvort kæra skuli mál til lögreglu. Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið gæti samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Þá er rétt að taka það fram að Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann eða fyrirtækið sem hann starfar hjá haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna samráðsbrota sem geta leitt til sönnunar á brotunum eða teljast mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar í höndunum.

Samkeppniseftirlitinu  er heimilt að afhenda lögregluyfirvöldum gögn og upplýsingar sem aflað hefur verið og tengjast umræddum brotum sem til rannsóknar eru. Á sama hátt getur lögreglan afhent Samkeppniseftirlitinu gögn og upplýsingar sem máli skipta. Þá er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsóknina og lögreglu er jafnframt heimilt að taka þátt í aðgerðum samkeppnisyfirvalda.