1.8.2008

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir brot á tilkynningarskyldu samruna

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 32/2008 frá 15. maí 2008 var komist að þeirri niðurstöðu að Sundagarðar ehf. hefðu brotið gegn tilkynningarskyldu samkeppnislaga um samruna. Um var að ræða kaup Sundagarða á öllu hlutafé í Borgarnes Kjötvörum ehf. Samkeppniseftirlitið taldi að fullnægjandi samrunatilkynning hefði ekki borist stofnuninni fyrr en 13. mars 2008 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að skylt var að tilkynna um samrunann. Með því hafði félagið brotið gegn tilkynningarskyldu um samruna og var því gert að greiða 750.000 krónur í sekt.

Sundagarðar skutu málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði sínum staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um brot Sundagarða á tilkynningarskyldu sinni. Í úrskurðinum kemur fram að nefndin telji að ákvæði samkeppnislaga um tilkynningarskyldu samruna séu afar mikilvæg og að nauðsynlegri tilsjón stofnunarinnar vegna samruna fyrirtækja sem áhrif hafa á markaði verði ekki haldið uppi nema það sé virt. Þannig séu brot á ákvæðum um tilkynningarskyldu alvarleg, einkum þegar langur tími líður frá því að samruni fer fram og þar til fullnægjandi tilkynning berst. Þótti því umrædd sektarfjárhæð hófsamlega metin og var hún staðfest af hálfu nefndarinnar.

Úrskurður nr. 10/2008.