10.12.2014

EFTA-dómstóllinn staðfestir heimild samkeppnisyfirvalda

EFTA-dómstóllinn hefur með dómi sínum í dag staðfest heimild samkeppnisyfirvalda til að grípa til aðgerða í tilefni samkeppnishindrunum sem leiða af úthlutun afgreiðslutíma (e. slots) á flugvöllum með skammtaðan afgreiðslutíma.

 Með afgreiðslutíma er átt við tíma sem flugfélög fá úthlutað á flugvöllum til að lenda og hleypa farþegum frá borði, fá nauðsynlega flugafgreiðslu og taka farþega um borð og fara aftur á loft. 

Aðdragandi málsins er sá að WOW air kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir fyrirkomulagi við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. 

Athugun Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að fyrirkomulagið hafði skaðleg áhrif á samkeppni og hindraði komu nýrra aðila inn á markaðinn fyrir áætlunarflug frá Íslandi. Fyrirkomulagið hefði leitt til þess að Icelandair, langstærsti keppinauturinn, hefði í raun haft forgang að nær öllum mikilvægustu afgreiðslutímum á flugvellinum. Þetta ætti einnig við um úthlutun á nýjum afgreiðslutímum vegna breytinga sem leitt hafa til fjölgunar afgreiðslutíma á flugvellinum. Fyrirkomulagið væri því til þess fallið að valda flugfarþegum tjóni. Í því skyni að efla samkeppni beindi Samkeppniseftirlitið þess vegna nánar tilteknum fyrirmælum til Isavia sem fer með framkvæmdastjórn flugvallarins.

 Hvorki Isavia né Icelandair vildu una ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og skutu ákvörðun þess til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í úrskurði sínum komst áfrýjunarnefndin að þeirri niðurstöðu að sá aðili, sem Isavia hafði ráðið til að gegna hlutverki samræmingarstjóra við úthlutun flugafgreiðslutíma, færi með sjálfstætt stjórnsýsluvald að íslenskum lögum. Isavia brysti því heimild til að hafa afskipti af störfum hans. Var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins því felld úr gildi.

 Af þessu tilefni höfðaði WOW air mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í því skyni að fá úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála felldan úr gildi. Héraðsdómur ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og ákvað dómstóllinn að málið sætti flýtimeðferð. 

Í dómi EFTA-dómstólsins sem var kveðinn upp í dag er staðfest að samkeppnisyfirvöld geta haft afskipti af samkeppnishindrunum sem leiða af úthlutun afgreiðslutíma. Með dóminum er því slegið föstu að svonefndur hefðarréttur (e. grandfather rights) á afgreiðslutímum komi ekki í veg fyrir íhlutun samkeppnisyfirvalda. Á grundvelli hefðaréttar hafa flugfélög sem áður nutu mikilla forréttinda (e. flag carriers) haft yfir að ráða mikilvægustu afgreiðslutímunum. Í málinu var því haldið fram að flugfélög eigi óskoraðan rétt á því að halda afgreiðslutímum sem þau fá úthlutað á grundvelli hefðarréttar, þ.e. hafa áður sýnt fram á 80% nýtingu á úthlutuðum afgreiðslutímum. Af dómi EFTA-dómstólsins leiðir að samkeppnisyfirvöld geta engu að síður gripið til aðgerða í slíkum tilvikum. 

Í dómi EFTA-dómstólsins kemur jafnramt fram að eitt meginmarkmið EES-samningsins sé að koma á kerfi sem tryggir að samkeppni sé ekki raskað. Er tekið fram að með reglugerð (EBE) nr. 95/93, um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, sé leitast við að auðvelda úthlutun afgreiðslutíma til nýrra aðila, sérstaklega með því að krefjast þess að 50% afgreiðslutímanna séu fráteknir þeim til handa. 

Reglugerðin hafi ekki áhrif á heimildir opinberra yfirvalda til að krefjast þess að afgreiðslutímar séu færðar á milli flugrekenda og til að stjórna hvernig þeim sé úthlutað í samræmi við innlend samkeppnislög eða samkeppnisreglur EES-réttar. Í slíkum tilvikum beri samkeppnisyfirvöldum hins vegar að beina fyrirmælum sínum til flugrekanda en ekki framkvæmdastjórn flugvallar. Lagaumhverfið sem tengist afgreiðslutímum er flókið og er þessi niðurstaða EFTA-dómstólsins réttarskýrandi að þessu leyti. 

Samkeppniseftirlitið mun meta þýðingu dóms EFTA-dómstólsins varðandi möguleika til að efla samkeppni á flugmarkaði.