28.1.2015

Sjálfstæði Mílu aukið vegna sameiningar Símans og Skipta

Í tilefni af sameiningu Skipta hf. og Símans hf. hafa félögin skuldbundið sig gagnvart Samkeppniseftirlitinu til þess að auka sjálfstæði Mílu ehf. sem rekstraraðila grunnfjarskiptakerfis og tryggja með því að markmið ákvörðunar nr. 6/2013, Breytingar á skipulagi Skiptasamstæðunnar, nái fram að ganga. Síminn og Míla hafa gert sátt við Samkeppniseftirlitið sem miðar að þessu. 

Fyrri ákvörðun, nr. 6/2013 

Samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun, nr. 6/2013, skuldbundu Skipti sig til að gera umfangsmiklar breytingar á skipulagi og háttsemi Skiptasamstæðunnar í því skyni að efla samkeppni. Með þeirri ákvörðun lauk rannsókn á nokkrum kvörtunum sem keppinautar Símans höfðu beint til Samkeppniseftirlitsins. Rannsóknin beindist að því hvort Síminn hefði brotið gegn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Í ákvörðuninni var höfð hliðsjón af eldri málum, þar sem Síminn og fyrirrennarar hans höfðu verið taldir misnota markaðsráðandi stöðu sína. 

Í ákvörðun nr. 6/2013 var í fyrsta sinn kveðið á um skýran og afgerandi aðskilnað milli annars vegar grunnkerfa samstæðunnar og þjónustu við fjarskiptafyrirtæki sem tengist þessum grunnkerfum, og hins vegar smásölustarfsemi Símans. Samkvæmt ákvörðuninni voru Skipti og dótturfélög bundin af ítarlegum skilyrðum sem tryggja áttu þetta og vinna þannig gegn því að staða Skipta í grunnfjarskiptum yrði nýtt til þess að skapa fyrirtækinu óeðlilegt samkeppnisforskot. Þannig var leitast við að tryggja að Síminn og keppinautar hans sætu við sama borð þegar kemur að aðgangi að grunnfjarskiptakerfum og kaupum á fjarskiptaþjónustu af samstæðunni á heildsölustigi. Sjá nánari umfjöllun um ákvörðunina hér

Breytingarnar nú 

Með sameiningu Skipta og Símans verða breytingar á samstæðunni sem kalla á breytingar á fyrrgreindri ákvörðun. Í stað þess að Síminn og Míla séu systurfélög undir móðurfélaginu Skiptum, verður Míla nú dótturfélag Símans. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gera m.a. eftirfarandi breytingar á fyrri ákvörðun: 

  • Sjálfstæði stjórnar Mílu gagnvart Símanum er styrkt. Þannig skulu stjórnarmenn Mílu verða óháðir Símanum og tengdum félögum. Þó er heimilt að minnihluti hinna óháðu stjórnarmanna Mílu sitji jafnframt í stjórn Símans, en um þátttöku þeirra í störfum stjórnar Mílu gilda strangar reglur. 
  • Gerð er krafa um fullan aðskilnað í húsnæði innan ákveðins aðlögunartíma. - Heimildir Mílu til að leita stoðþjónustu til móðurfélags eru takmarkaðar frá fyrri sátt. 
  •  Sjálfstæði eftirlitsnefndar er styrkt. Í núverandi eftirlitsnefnd situr starfsmaður móðurfélags Mílu, en með breytingunni verður það óheimilt. 

Eftirlitsnefnd um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja að kerfum, sem komið var á fót með ákvörðun nr. 6/2013, er ætlað að fylgja því eftir að framangreind styrking fái greiðan framgang og tryggja hagsmuni viðskiptavina Mílu á aðlögunartíma hinna breyttu skuldbindinga Símasamstæðunnar. 

Samkeppniseftirlitið mun á næstunni birta ákvörðun á heimasíðunni þar sem nánari grein er gerð fyrir framangreindum breytingum.