12.11.2008

Samkeppniseftirlitið beinir því til ríkisbanka að leggja samkeppnislegt mat á ákvarðanir um framtíð fyrirtækja

bankarSamkeppniseftirlitið hefur í dag beint því til viðskiptabanka sem eru í eigu ríkisins að við töku ákvarðana er varða framtíð fyrirtækja sé höfð hliðsjón af þeim mikilvægu langtímahagsmunum almennings og viðskiptalífsins að virk samkeppni geti þrifist á sem flestum mörkuðum hér á landi. Hefur Samkeppniseftirlitið beint því til bankanna að hafa tilteknar 10 meginreglur til hliðsjónar við slíkar ákvarðanir. 

Meginreglurnar fjalla m.a. um eftirfarandi:

  • Að sú ráðstöfun sé valin sem raskar samkeppni sem minnst.
  • Að ekki sé stofnað til aukinnar fákeppni eða óæskilegra stjórnunar- og eignatengsla, heldur leitast við að draga úr slíku ástandi.
  • Að hagsmunir tveggja keppinauta séu ekki á hendi sömu aðila.
  • Að hlutlægni í ráðstöfun eigna sé tryggð.
  • Að skapaðir séu möguleikar fyrir nýja aðila til að koma inn á samkeppnismarkaði og dreifðara eignarhaldi fyrirtækja.
  • Að tilnefndur sé ábyrgðaraðili samkeppnismála sem hafi umsjón með samkeppnislegu mati á ráðstöfunum og að ferli við töku ákvarðana sé gegnsætt og skrásett.

Viðkomandi aðilum ber að gera opinberlega grein fyrir ferlum og vinnureglum sem miða eiga að framangreindu.

Meginreglurnar eiga einnig við um ákvarðanir skilanefnda sem stýra forverum bankanna, auk þess sem æskilegt er að þær séu hafðar til hliðsjónar af opinberum aðilum sem kynnu að taka ákvarðanir um hagsmuni fyrirtækja á samkeppnismarkaði.

Framangreindar meginreglur eru birtar í áliti nr. 3/2008, Ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum, einnig er hægt að nálgast þýðingu á þeim undir opinion no. 3/2008 á ensku útgáfu síðunar

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri.

Bakgrunnsupplýsingar:
Eins og kunnugt er hefur íslenskur fjármálamarkaður lent í miklum hremmingum undanfarið og hefur Fjármálaeftirlitið með heimild í lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. tekið yfir rekstur Kaupþings banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitnis banka hf. Skipaðar hafa verið skilanefndir sem fara með stjórn bankanna. Í kjölfarið hafa nýir bankar verið stofnaðir um innlenda bankastarfsemi viðskiptabankanna þriggja. Hinir nýju bankar eru í eigu íslenska ríkisins.

Ljóst er að mörg íslensk fyrirtæki glíma nú við rekstarvanda. Fyrirtækin leitast við að halda rekstrinum gangandi og bjarga verðmætum vegna hruns íslenskra viðskiptabanka og þeirra þrenginga sem af því hafa hlotist ofan í aðgerðir vegna versnandi rekstrarumhverfis fyrirtækjanna síðustu mánuði. Fjölmörg þessara fyrirtækja hafa verið í viðskiptum við framangreinda banka og áframhaldandi aðgangur að lánsfé og fyrirgreiðslu er nauðsynlegur fyrir starfsemi þeirra.

Hjá stjórnendum nýrra banka, og eftir atvikum þeim sem fara með stjórnun þeirra banka sem Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að taka yfir, liggur víðtækt ákvörðunarvald um framvindu atvinnulífs. Við þær aðstæður sem nú ríkja eru ákvarðanir þeirra líklegri en nokkru sinni til þess að hafa þýðingu fyrir framtíðar samkeppnisaðstæður og þar með virkni atvinnulífs á mikilvægum mörkuðum. Af hálfu Samtaka atvinnulífsins og fleiri hefur verið lögð á það áhersla að mótað verði faglegt og gagnsætt ferli við ákvarðanir af þessu tagi.

Samkeppni í viðskiptum er nauðsynleg fyrir íslenskt atvinnulíf þar sem hún eykur velferð almennings og stuðlar að hagkvæmni í atvinnurekstri. Virk samkeppni er atvinnuskapandi og stuðlar að aukinni framleiðni og efnahagslegum vexti. Reynsla annarra ríkja af efnahagskreppum og rannsóknir fræðimanna sýna að aðgerðir til þess að efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins. Sömu heimildir sýna að ráðstafanir sem takmarka samkeppni framlengja og auka á efnahagsörðugleika og vinna þar með gegn bata.

Í þessu ljósi er afar mikilvægt að samhliða framangreindum ákvörðunum á vegum bankanna fari fram samkeppnislegt mat á viðkomandi ráðstöfunum, án þess að vikið sé til hliðar augljósum hagsmunum af því að hámarka verðmæti, tryggja hagsmuni bankanna til lengri tíma litið og vinna hratt. Mikilvægt er að við töku ákvarðana er varða framtíð fyrirtækja sem starfa á lykilmörkuðum sé höfð hliðsjón af þeim mikilvægu langtímahagsmunum almennings og viðskiptalífsins að virk samkeppni geti þrifist á sem flestum mörkuðum hér á landi.