2.11.2015

Áfrýjunarnefnd staðfestir alvarlegt brot Steinullar

Steinull LogoÞann 15. maí sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Steinull hefði brotið gegn skilyrðum í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2002, m.a. með því að veita Húsasmiðjunni upplýsingar um viðskiptakjör Norðuráls á steinull. Umrædd skilyrði voru sett vegna kaupa Byko, Húsasmiðjunnar og Kaupfélags Skagfirðinga á eignarhlutum í Steinullarverksmiðjunni hf. (nú Steinull hf.). Skilyrðunum var ætlað að vinna gegn því að sameiginleg eignaraðild Byko og Húsasmiðjunnar að Steinull myndi takmarka samkeppni. Samkeppniseftirlitið taldi hæfilegt að leggja 20 mkr. stjórnvaldssekt á Steinull vegna þessa.

Steinull skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem í dag birti úrskurð sinn. Staðfesti nefndin að Steinull hefði brotið gegn umræddri ákvörðun en taldi að það hefði verið minna að umfangi en Samkeppnseftirlitið lagði til grundvallar og lækkaði því sekt. Í úrskurði áfrýjunarnefndar segir: „Í ljósi þessarar niðurstöðu verður [Steinull] gert að greiða lægri sekt en ákveðin var í niðurstöðum ákvörðunar nr. 11/2015 og telst hún hæfilega ákveðin 15.000.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til þess að brotið telst í eðli sínu alvarlegt og að ekki gat farið á milli mála að upplýsingagjöfin var í andstöðu við skýr fyrirmæli.“