8.4.2009

Samkeppniseftirlitið ógildir kaup Myndforms ehf. (Laugarásbíós) á helmingshlut í rekstri Háskólabíós af Senu

myndform_logoSamkeppniseftirlitið hefur í dag ógilt kaup Myndforms ehf. á helmingshlut í Þrjúbíói ehf. af Senu ehf. Þrjúbíó hefur rekið Háskólabíó sl. þrjú ár og hefur á þeim tíma verið í eigu Senu sem jafnframt rekur m.a. Smárabíó og Regnbogann. Myndform rekur hins vegar Laugarásbíó. Kaup þessi hefðu því að óbreyttu leitt til þess að Sena og Myndform hefðu í sameiningu rekið Háskólabíó.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að umræddir aðilar, þ.e. Sena og Myndform, sem starfa á markaði fyrir kvikmyndasýningar í kvikmyndahúsum séu með Sam-félaginu ehf. sem rekur Sambíóin í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu. Sameiginleg markaðsráðandi staða gerir viðkomandi fyrirtækjum kleift að samhæfa hegðun sína á markaðnum án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. Eru slík fyrirtæki í stöðu til þess að takmarka samkeppni og hækka verð eða draga úr þjónustu. Það að Myndform kaupi helmingshlut í rekstri Háskólabíós af Senu er að mati Samkeppniseftirlitsins til þess fallið að styrkja sameiginlega markaðsráðandi stöðu kvikmyndahúsanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu og valda neytendum samkeppnislegu tjóni.

Undir rekstri málsins komu fram óskir af hálfu Senu um viðræður um hvort unnt væri að heimila samrunann með skilyrðum í stað þess að ógilda hann. Voru tillögur Senu um hugsanleg skilyrði tekin til skoðunar. Það var hins vegar niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að þau myndu ekki duga til að eyða skaðlegum samkeppnislegum áhrifum samrunans. Er samruninn því ógiltur.

Sjá nánar ákvörðun nr. 15/2009.