18.5.2009

Samruni Haga og BT afturkallaður

Hagar_BT_logoSamkeppniseftirlitið hefur tekið ákvörðun um að ekkert verði aðhafst vegna samruna Haga og BT þar sem samruni sá sem tilkynntur var stofnuninni hefur gengið til baka. Í samrunanum fólst að gerður var samningur milli Haga hf. og þrotabús BT Verslana ehf. hinn 20. nóvember 2008 um kaup Haga á innréttingum, tækjum, tólum, vörumerki, öllum lager verslana BT og öðru sem við kemur verslunarrekstri BT.

Tildrög þess að samruninn gekk til baka er að við rannsókn málsins gaf Samkeppniseftirlitið út svokallað andmælaskjal þar sem færð voru rök fyrir því frummati eftirlitsins að samruninn raskaði samkeppni með alvarlegum hætti. Með andmælaskjalinu var aðilum gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum vegna þessa frummats.
 
Samrunaaðilar mótmæltu frummati Samkeppniseftirlitsins, en tilkynntu síðan að með vísan til athugasemda Samkeppniseftirlitsins við samrunann og fyrirvara sem gerðir voru í kaupsamningi hefðu þeir komist að samkomulagi um riftun kaupsamningsins. Gengur því samruninn til baka.

Með ákvörðun í dag komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að aðhafast frekari í málinu.  Í sérstöku  máli er þó til rannsóknar ætlað brot gegn banni við því að framkvæma samruna áður en Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um hann.

Sjá nánar ákvörðun nr. 20/2009.