2.7.2009

Fréttatilkynning - Samkeppniseftirlitið bannar með bráðabirgðaákvörðun tilboð Símans undir yfirskriftinni „3G netlykill og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar“ sem getur skaðað samkeppni á markaði fyrir nettengingu

Siminn_logoSamkeppniseftirlitið hefur í dag lagt bann til bráðabirgða við tilboði Símans sem kallast „3G netlykill og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar“ á meðan rannsókn eftirlitsins á kæru Nova vegna tilboðsins stendur yfir. Er sennilegt að tilboðið brjóti í bága við bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það er til þess fallið að skaða samkeppni á viðkvæmum, nýlegum markaði þar sem Nova, yngsti keppinauturinn á fjarskiptamarkaði, hefur verið að ná nokkurri fótfestu.

Þykir Samkeppniseftirlitinu nauðsynlegt að banna tilboð Símans að svo stöddu vegna þess að sumarið er sá árstími þegar helst er að vænta mikils vaxtar á umræddum markaði. Bið með ákvörðun þangað til endanleg niðurstaða af rannsókn eftirlitsins á kæru Nova liggur fyrir kann því að valda samkeppnislegum skaða á markaðnum sem ekki væri afturkræfur. Kynni keppinautur að hrökklast út af markaðnum við svo búið.

Í framangreindu tilboði Símans felst þjónusta sem varðar mögulega tengingu á tölvum við Internetið með notkun 3G (þriðju kynslóðar) netlykils. Þeir sem gerast áskrifendur að 3G gagnaflutningsþjónustu hjá Símanum fá netlykil (stundum nefndur pungur) og áskrift í þrjá mánuði ókeypis en binda sig í viðskipti við fyrirtækið í sex mánuði. Þessi þjónusta getur m.a. nýst notendum, ekki síst ferðamönnum í sumarbústöðum, tjaldsvæðum og víðar, á svæðum sem ADSL þjónustu nýtur ekki en þar sem 3G þjónusta býðst.

Sjá nánar ákvörun til bráðabirgðar nr. 2/2009.