3.8.2017

Vegna fréttar um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts.

Vegna frétta á vef Bændablaðsins um að Samkeppniseftirlitið hafi hafnað beiðni Markaðsráðs kindakjöts um samstarf sláturleyfishafa við útflutning á kindakjöti, vill Samkeppniseftirlitið taka fram eftirfarandi:

Þann 1. ágúst síðastliðinn ritaði Samkeppniseftirlitið Markaðsráði kindakjöts bréf þar sem eftirlitið setti fram það frummat sitt að Markaðsráðið hefði ekki sýnt fram á að lagaskilyrði fyrir undanþágu séu uppfyllt. Beindi Samkeppniseftirlitið sérstaklega sjónum að þeirri takmörkun á framboði sauðfjárafurða sem ráðgerð er með samstarfi sláturleyfishafa. Í bréfinu er meðferð málsins rakin, þ. á m. að Samkeppniseftirlitið hafi ítrekað gefið Markaðsráðinu kost á að koma á framfæri viðbótarrökstuðningi. Eins og rakið er í bréfinu varð Markaðsráðið ekki við boði eftirlitsins um að koma á framfæri undirbúningsgögnum sem það kann að búa yfir sem sýnir fram á hverjar yrðu afleiðingar eða áhrif þeirra aðgerða sem óskað var undanþágu fyrir. Markaðsráðið varð heldur ekki við beiðni um að staðfesta að slík gögn væru ekki til.


Að svo búnu taldi Samkeppniseftirlitið óhjákvæmilegt að setja fram frummat byggt á þeim takmörkuðu gögnum sem fyrir lágu. Eins og bréfið ber með sér er ekki um endanlega ákvörðun að ræða. Benti eftirlitið m.a. á að erindisbeiðendur virðast ekki hafa lagt á það mat hvaða áhrif aðgerðirnar hefðu á verð til neytenda og ekki hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir því hvernig aðgerðirnar myndu hafa raunverulega þýðingu fyrir fjárhag og viðgang bænda í greininni. Ljóst er að undirbúningi málsins af hálfu Markaðsráðsins hefur verið verulega ábótavant að þessu leyti.


Á meðal þess sem Markaðsráðið óskar undanþágu fyrir er samstarf sláturleyfishafa um skyldu til útflutnings á lambakjöti og er lagt til að útflutt magn í heild miði við 35% af framleiddu lambakjöti á árinu 2017 og svipað hlutfall áætlað fyrir árið 2018. Samstarfið felur í eðli sínu í sér samkomulag keppinauta um takmörkun á framboði á sauðfjárafurðum sem myndi leiða til hærra verðs til íslenskra neytenda. Gert er ráð fyrir að þeir sláturleyfishafar sem standi ekki við skuldbindingu sína um útflutning  greiði útflutningsgjald til Markaðsráðs kindakjöts.

Bréf Samkeppniseftirlitsins er aðgengilegt hér.