15.12.2017

Rannsókn á samningum Securitas um bindingu viðskiptavina lokið með sátt Securitas endurskoðar samninga um Heimavörn og Firmavörn

Með ákvörðun nr. 45/2017, sem birt er í dag, er leidd til lykta athugun er varðar einkakaupasamninga Securitas hf. við viðskiptavini sína um Heimavörn og Firmavörn. Í umræddum samningum fólst að viðskiptavinunum var óheimilt að eiga viðskipti við aðra þjónustuaðila í þrjú ár (36 mánuði).  

Til grundvallar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins liggur sátt, þar sem Securitas fellst á að hafa með þessum samningum gengið gegn banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Jafnframt mun Securitas ráðast í aðgerðir til þess að tryggja að samningar þeirra við viðskiptavini hindri ekki samkeppni. Mun Securitas m.a. endurskoða alla viðskiptasamninga fyrirtækisins. 

Einnig hefur Securitas fallist á að upplýsingagjöf þeirra við fyrri rannsókn hafi ekki verið í samræmi við þær skyldur sem upplýsingaskyldu ákvæði 19. gr. samkeppnislaga leggur á fyrirtæki. Greiðir Securitas samtals 40.000.000 kr. vegna 11. og 19. gr.  

Forsagan:

Forsaga málsins er sú að með ákvörðun nr. 40/2014 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Securitas hf. hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og lagði á Securitas hf. stjórnvaldssekt að fjárhæð 80.000.000 (áttatíu milljónir) króna. Brot Securitas hf. fólust í því að fyrirtækið gerði einkakaupasamninga við viðskiptavini sína um svokallaða Heimavörn og Firmavörn, en samningarnir fólu í sér að viðskiptavinunum var óheimilt að eiga viðskipti við aðra þjónustuaðila um nokkurra ára skeið. Einnig voru í samningunum ákvæði sem voru til þess fallin að skapa aukna tryggð viðskiptavina við Securitas hf.  

Securitas hf. kærði þessa ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. mál nr. 1/2015. Með kærunni voru lögð fram gögn sem ekki lágu fyrir þegar Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun sína. Taldi Securitas hf. að þessar nýju upplýsingar hefðu þýðingu við mat á háttsemi fyrirtækisins sem leiddi til ákvörðunar nr. 40/2014. Nýju upplýsingarnar lutu að kostnaði Securitas hf. við gerð viðskiptasamninga um öryggisþjónustu. Undir meðferð áfrýjunarnefndar óskaði Securitas hf. því eftir endurupptöku á ákvörðun nr. 40/2014, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkeppniseftirlitið féllst á að endurupptaka málið á grundvelli ákveðinna forsendna sem nánar eru raktar í ákvörðuninni.  

Í endurupptekna málinu var lagt nýtt mat á kostnað Securitas hf. við gerð viðskiptasamninga um öryggisþjónustu auk þess sem tekið var til skoðunar hvort upplýsingagjöf Securitas hf. sem leiddi til ákvörðunar nr. 40/2014 hefði verið í samræmi við 19. gr. samkeppnislaga. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt er í dag hafa Samkeppniseftirlitið og Securitas hf. gert með sér sátt í því skyni að ljúka endurupptökumálinu, sbr. 17. gr. f samkeppnislaga, sbr. og 22. gr. reglna um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins nr. 880/2005.