3.12.2018

Kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf. á Póstmiðstöðinni ehf. samþykkt með skilyrðum

Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf. á Póstmiðstöðinni ehf. Samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Þannig skuldbinda aðilar sig til aðgerða til þess að bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.

 

Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins og Torg ehf., dótturfélag 365 miðla, er útgáfufélag Fréttablaðsins. Um er að ræða stærstu dagblöð landsins. Póstmiðstöðin er félag sem starfar á sviði dreifingar, m.a. dagblaða og fjölpósts. Póstmiðstöðin er dreifingaraðili Fréttablaðsins og annarra miðla. Landsprent ehf. er dótturfélag Árvakurs og hefur m.a. sinnt dreifingu Morgunblaðsins og annarra miðla. Með samrunanum hyggjast samrunaaðilar sameina dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst undir fyrirtækinu Póstmiðstöðinni sem þeir hyggjast reka sem dótturfélag.

 

Samkeppniseftirlitið rannsakaði samrunann á grundvelli samrunareglna bæði samkeppnislaga og fjölmiðlalaga en samrunareglum síðarnefndu laganna er ætlað að vernda fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun. Rannsókn samrunans leiddi í ljós að samruninn leiðir til mögulegrar hagræðingar í dreifingu sem mikilvæg kann að vera fyrir markaðinn fyrir útgáfu dagblaða, m.a vegna kostnaðar við blaðadreifingu. Á hinn bóginn leiddi rannsóknin í ljós ákveðna hættu á því að samrunaaðilar gætu misbeitt stöðu sinni gagnvart keppinautum, t.a.m. með því að hefta aðgang þeirra að dreifikerfi Póstmiðstöðvarinnar og mismuna þeim í verðlagningu og gæðum þjónustunnar.

 

Þann 15. október sl. leitaði Samkeppniseftirlitið sjónarmiða markaðsaðila og almennings vegna tillögu samrunaaðila að skilyrðum. Í kjölfar umsagna sem bárust tóku skilyrðin ákveðnum breytingum sem ætlað er að styrkja efni og umgjörð þeirra.  

 

Líkt og áður sagði hefur Samkeppniseftirlitið nú sett samrunanum skilyrði sem ætlað er að bregðast við þeim vandamálum sem annars gætu leitt af honum. Meginefni sáttarinnar er eftirfarandi:

 

1.    Aðgangur og jafnræði: Póstmiðstöðinni verður óheimilt að útiloka aðila sem eru ótengdir samrunaaðilum frá viðskiptum vegna dreifingar á blöðum og prentefni. Skal Póstmiðstöðin verða við beiðni aðila um þjónustu nema málefnalegar ástæður mæli gegn því.

 

Póstmiðstöðin skal jafnframt gæta jafnræðis í verðlagningu og gæðum þjónustunnar gagnvart viðskiptavinum sínum.

 

2.    Almenn verðskrá: Póstmiðstöðin skal setja sér almenna verðskrá vegna dreifingar á blöðum og prentefni. Verðskráin skal gilda í viðskiptum Póstmiðstöðvarinnar við viðskiptamenn, þ. á m. Árvakur og 365 miðla.

 

3.    Aukin eftirspurn: Í fjórðu grein sáttarinnar segir að Póstmiðstöðin skuli leitast við að verða við ósk nýs aðila um þjónustu jafnvel þó viðskiptin kalli á verulegar breytingar, m.a. fjárfestingar, breytingar á núverandi dreifikerfi eða verulega aukningu starfsmanna.  

 

4.    Bann við samtvinnun þjónustu: Póstmiðstöðinni og eigendum hennar er óheimilt að gera það að skilyrði að viðskiptamenn Póstmiðstöðvarinnar kaupi jafnframt aðra þjónustu frá eigendum, s.s. prentþjónustu.

 

5.    Sjálfstæði stjórnenda og vernd trúnaðarupplýsinga: Framkvæmdastjóri og lykilstarfsmenn Póstmiðstöðvarinnar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum gagnvart Árvakri og 365 miðlum.

 

Jafnframt er í sáttinni kveðið á um aðgerðir til að vernda viðkvæmar viðskiptaupplýsingar viðskiptamanna Póstmiðstöðvarinnar.

 

 

Nálgast má sátt Samkeppniseftirlitsins við samrunaaðila hérna .    

 

Á næstunni mun Samkeppniseftirlitið birta fullbúna ákvörðun vegna málsins, en þar verður nánari grein gerð fyrir meðferð málsins, undirliggjandi rannsóknum og þeim aðgerðum sem framangreind sátt mælir fyrir um.