29.4.2010

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir alvarleg brot Símans

Siminn_logoMál þetta á rætur að rekja til kæru sem fyrirtækið TSC sendi Samkeppniseftirlitinu. TSC er lítið fjarskiptafyrirtæki sem starfar á norðanverðu Snæfellsnesi. TSC byggði á því að Síminn hefði  beitt fyrirtækið ólögmætum viðskiptahindrunum og hindrað samkeppni, m.a. með hindrunum á aðgangi að flutningskerfi Símans vegna dreifingar á sjónvarpsefni Íslenska sjónvarpsfélagsins (Skjár 1).  Eftir rannsókn málsins taldi Samkeppniseftirlitið sannað að Síminn hefði brotið gegn tveimur skilyrðum sem sett voru í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005, Samruni Landssíma Íslands hf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., og lagði á fyrirtækið stjórnvaldssekt í desember sl. Síminn skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem birti úrskurð sinn í dag. Staðfestir nefndin þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að alvarleg brot hafi verið framin og rétt hafi verið að leggja sekt á Símann.

Í umræddri ákvörðun samkeppnisráðs frá 2005 var komist að þeirri niðurstöðu að samruni Símans og Íslenska sjónvarpsfélagsins raskaði samkeppni og þörf væri á aðgerðum vegna hans, m.a. til að tryggja samkeppnisstöðu minni fjarskiptafyrirtækja. Síminn féllst á að fara eftir tilteknum skilyrðum til þess að eyða þeim samkeppnishömlum sem ella hefðu stafað af samrunanum. Samkeppniseftirlitið taldi eins og fyrr sagði í ákvörðun sinni að Síminn hefði brotið hluta þessara skilyrða. Í úrskurði áfrýjunarnefndar er þetta staðfest og telur nefndin að þessi brot séu alvarleg og háttsemi Símans sé “í andstöðu við nokkur meginatriði þess sem hann undirgekkst sjálfur að hafa í heiðri þegar samruninn við ÍS [Íslenska sjónvarpsfélagið] var heimilaður.“ Telur áfrýjunarnefndin einnig að háttsemi Símans hafi verið neytendum til tjóns.

Samkeppniseftirlitið taldi hæfilegt að leggja á Símann sekt að fjárhæð kr. 150.000.000. Var í því sambandi m.a. horft til eldri brota Símans á samkeppnislögum. Áfrýjunarnefnd lækkaði þessa sekt í kr. 50.000.000. Til stuðnings þessu vísað áfrýjunarnefndin til versnandi fjárhagsafkomu Símans og að hugsanlegir tæknilegir annmarkar hafi verið samverkandi þáttur í hluta brotsins. Þá felldi áfrýjunarnefnd úr gildi fyrirmæli sem Samkeppniseftirlitið hafði beint til Símans til þess að bæta samkeppnisstöðu minni keppinauta þar sem nefndin taldi að fyrirmælin féllu ekki undir þá heimild sem stuðst var við.

Sjá nánar úrskurð Áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 2/2010.