9.7.2010

Skipti, Tæknivörur og Síminn liðsinna Samkeppniseftirlitinu við rannsókn á ólögmætu samráði

-400 milljónir kr. greiddar í sekt
-Skipti selja frá sér Tæknivörur

Skipti_logoÞann 21. apríl 2010 framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Skiptum hf. og dótturfélögum þess, Símanum hf. og Tæknivörum ehf. Á grundvelli gagna sem fundust í þeirri leit var framkvæmd leit hjá Hátækni ehf. og móðurfélagi þess, Olíuverslun Íslands hf., þann 7. maí sl. Var þetta gert sökum gruns um ólögmætt samráð milli Hátækni og Tæknivara á heildsölumarkaði fyrir sölu á farsímum. Þessi fyrirtæki eru helstu keppinautarnir í innflutningi og heildsölu á farsímum og tengdum búnaði. Hátækni er umboðsaðili fyrir m.a. Nokia síma og Tæknivörur fyrir m.a. Sony Ericsson síma.

Í kjölfar húsleitanna snéru Skipti og Tæknivörur sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu með vísan til samkeppnislaga eftir því að veita liðsinni við að upplýsa málið. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við Skiptasamstæðuna. Sáttin felur í sér eftirfarandi: 

  • Skipti og dótturfélög hafa afhent gögn og upplýst um málsatvik.
  • Viðurkennt er að Tæknivörur hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með umfangsmiklu ólögmætu samráði við Hátækni.
  • Fallist er á að greiða 400 milljónir kr. í stjórnvaldssekt vegna brotanna.
  • Skipti fallast á að selja allan eignarhlut sinn í Tæknivörum.
  • Síminn skuldbindur sig til að grípa ekki til aðgerða sem raskað geta samkeppni á markaði fyrir farsíma.

Framangreind sátt auðveldar rannsókn Samkeppniseftirlitsins auk þess sem hún hefur mun fyrr en ella í för með sér breytingu á markaðnum og jákvæð áhrif fyrir samkeppni og neytendur. Eru ákvæði 42. gr. samkeppnislaga uppfyllt og mun Samkeppniseftirlitið því ekki kæra stjórnendur hjá Skiptasamstæðunni til lögreglu. Með þessu er málinu lokið gagnvart fyrirtækjum innan Skiptasamstæðunnar.

Þáttur Hátækni og eftir atvikum Olíuverslunar Íslands er enn til rannsóknar.

Bakgrunnsupplýsingar:
Samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið lokið málum með sátt og fellt niður eða lækkað sektir hjá fyrirtækjum sem að eigin frumkvæði stíga fram og veita upplýsingar um eða játa þátttöku í ólögmætu samráði. Samkeppnislög gera einnig ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið geti látið hjá líða að kæra stjórnendur fyrirtækja til lögreglu ef þeir eða fyrirtæki sem þeir starfa hjá veita aðstoð af þessum toga en ólögmætt samráð getur, auk stjórnvaldssekta á fyrirtæki, varðað einstaklinga allt að 6 ára fangelsi.

Þessi ákvæði samkeppnislaga eru ekki sett brotlegum aðilum til hagsbóta heldur eru mikilvægt tæki til að uppræta ólögmætt samráð og skapa óeiningu og tortryggni meðal þeirra sem taka þátt í slíkum brotum. Ólögmætt samráð er mjög skaðlegt fyrir neytendur og atvinnulífið og hafa reglur af þessum toga gefist vel í samkeppnisrétti ýmissa ríkja1.

Framangreindar húsleitir hjá Skiptasamstæðunni voru einnig liður í rannsókn á ætluðum brotum m.a. Símans á banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það mál er enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til bráðabirgða nr. 2/2010 Meint brot Símans hf. á markaði fyrir farsímaþjónustu.

1Nánari umfjöllun um þessi atriði má finna í skýrslu nefndar forsætisráðherra um viðurlög við efnahagsbrotum og í frumvarpi sem varð að lögum nr. 52/2007 sem breyttu viðurlagaákvæðum samkeppnislaga.