10.11.2010

Virk samkeppni er umhverfisstefnunni mikilvæg

greengrowth_2010b

Skýrsla norrænna samkeppniseftirlita um samspil samkeppnisstefnu og umhverfisstefnu er komin út

Samkeppniseftirlitið beinir því til íslenskra stjórnvalda og atvinnulífsins að huga að samspili samkeppni og umhverfismála við mótun umhverfisstefnu.

Fyrirsjáanlegt er að í framtíðinni munu vistvæn gildi og stefnumál hafa mun meiri áhrif á efnahagsstefnu stjórnvalda og markaðsstarfsemi heldur en hingað til. Helstu alþjóðastofnanir leggja nú mikla áherslu á að búa í haginn fyrir vistvænan hagvöxt.

Samkeppni stuðlar almennt að aukinni framleiðni og nýsköpun sem eru mikilvægir þættir við mótun vistvænna efnahagsumhverfis. Jafnframt getur virk samkeppni stuðlað að því að umhverfisstefna skili betri árangri á mörkuðum. Þannig eykur virk samkeppni líkurnar á að umhverfisstefna skili tilætluðum árangri jafnhliða því sem hagur neytenda af virkri samkeppni er tryggður. Um þetta er fjallað í nýrri skýrslu norrænu samkeppniseftirlitanna, Competition Policy and Green Growth, sem birt er á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins í dag.

Í skýrslunni er bent á að umhverfisstefna getur í sumum tilvikum leitt til minni samkeppni, þó markmið umhverfisstefnu og samkeppnisstefnu séu í grundvallaratriðum hin sömu, þ.e. að verja og efla almenna velferð.  Því er mikilvægt að leitað sé leiða við úrlausn umhverfismála sem raska samkeppni eins lítið og mögulegt er.

Í skýrslunni er helstu þáttum umhverfisstefnu lýst, farið yfir úrlausnaraðgerðir sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr skaðlegum áhrifum markaðsstarfsemi á umhverfið og eru hugsanleg áhrif þessara aðgerða á samkeppni greind. Mælt er með því að stjórnvöld beiti aðgerðum sem styðjast við markaðsúrlausnir, s.s. grænum sköttum og sölu losunarheimilda, í sem mestum mæli til þess að ná tilætluðum árangri.

Skýrslan verður sérstaklega kynnt ráðuneytum, stofnunum atvinnulífs og umhverfismála, alþingismönnum og hagsmunasamtökum í atvinnulífinu. Hún er aðgengileg á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins ásamt íslenskri þýðingu á samantekt.

Það er afar þýðingarmikið að stuðla að því að heilbrigð samkeppni geti farið saman við stefnu stjórnvalda um að draga úr skaðlegum áhrifum sem framleiðsla og neysla hafa á umhverfið. Þetta á við bæði vegna þess að virk samkeppni stuðlar að bættum hag neytenda og vegna þess að virk samkeppni getur aukið skilvirkni umhverfisstefnu.
segir Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

[PDF - opnast í nýjum glugga] Fréttatilkynning
[PDF - opnast í nýjum glugga] Útdráttur úr samnefndri skýrslu norrænu samkeppniseftirlitanna
[PDF - opnast í nýjum glugga] Skýrslan í heild sinni á ensku