14.12.2010

Rannsókn á samkeppnislagabrotum leiðir til breytinga á matvörumarkaði

matvara-kjotvorurSamkeppniseftirlitið birtir í dag ákvörðun nr. 33/2010 þar sem greint er frá brotum, annars vegar verslana Bónuss í eigu Haga, og hins vegar sex kjötvinnslufyrirtækja, gegn 10. gr. samkeppnislaga með samkeppnishamlandi samvinnu um verð. Þetta gerðu fyrirtækin með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar hafa verðmerkt fyrir Haga (svokölluð forverðmerking).

Lyktir málsins – sektir:

Eftir að fyrirtækjunum var kynnt frumniðurstaða Samkeppniseftirlitsins í málinu sneru þau sér hvert í sínu lagi til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við eftirfarandi fyrirtæki. Í þeim felst m.a. að fyrirtækin viðurkenna brot á 10. gr. samkeppnislaga og greiða sekt vegna þeirra:

  • 27. september sl. var gerð sátt við Haga. Greiða Hagar 270 m.kr. í stjórnvaldssekt.
  • 1. október var gerð sátt við Sláturfélag Suðurlands og Reykjagarð en þessi fyrirtæki eru hluti af sömu fyrirtækjasamstæðu. Greiða þau 45 m.kr. samtals í stjórnvaldssekt.
  • 1. október var gerð sátt við Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga. Greiðir félagið 40 m.kr. í stjórnvaldssekt.
  • 6. október var gerð sátt við Norðlenska og greiðir fyrirtækið 30 m.kr. í stjórnvaldssekt.
  • 8. október var gerð sátt við Kjarnafæði og greiðir fyrirtækið 20 m.kr. í stjórnvaldssekt.
  • 12. nóvember sl. var gerð sátt vegna Kjötbankans. Í henni voru viðurkennd brot fyrirtækisins. Forsendur voru hins vegar ekki til álagningar sekta m.a. vegna gjaldþrots Kjötbankans.

Síld og fiskur og Matfugl óskuðu eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu. Þáttur þessara fyrirtækja er því enn til rannsóknar. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, tekur aðeins til þeirra fyrirtækja sem gert hafa sátt við eftirlitið.

Breytingar á matvörumarkaði neytendum til hagsbóta

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er gerð nánari grein fyrir því í hverju framangreind brot Haga og kjötvinnslufyrirtækjanna sex fólust. Ákvæði samkeppnislaga banna framleiðendum og smásölum að hafa með sér samráð um endursöluverð (lóðrétt verðsamráð). Tölvupóstar og önnur gögn sýna að annars vegar Bónus og hins vegar kjötvinnslurnar sex (hver fyrir sig) höfðu nána samvinnu um smásöluverð Bónuss og afslætti frá því. Fólst í þessu mun meiri samvinna heldur en einföld samskipti um verðmerkingar á kjöti og unnum kjötvörum. Voru brotin til þess fallin að valda samkeppnislegu tjóni.

Til þess að vinna gegn frekari brotum á samkeppnislögum og skapa skilyrði fyrir aukinni samkeppni hafa umrædd fyrirtæki fallist á að hlíta tilteknum fyrirmælum og skilyrðum og eru þau birt í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Þau eru einkum eftirfarandi:

  • Hagar og umræddir kjötbirgjar hafa skuldbundið sig til að hætta öllum samskiptum um smásöluverð í verslunum Haga. Í þessu felst að starfsmönnum Haga og kjötbirgjanna er óheimilt að eiga samskipti um smásöluverð, afslætti frá smásöluverði og smásöluálagningu.
  • Frá og með 1. mars 2011 munu Hagar hætta að taka við öllum kjötvörum merktum með smásöluverði og eru staðlaðar, hvað varðar magn, umbúðir og innihald. Er hér t.d. um að ræða flestar tegundir af pylsum, tilbúnum réttum og sumar áleggstegundir.
  • Eftir 1. júní 2011 munu verslanir Haga alfarið hætta að taka við öðrum kjötvörum sem merktar eru með smásöluverði. Frá nefndum tímamörkum munu verslanir Haga þannig annast að öllu leyti sjálfar merkingu smásöluverðs á kjötvörum.
  • Högum er óheimilt að veita afslætti á kjötvörum nema um raunlækkun sé að ræða frá gildandi smásöluverði. Það er bæði samkeppnishamlandi og villandi gagnvart neytendum að gefa til kynna að vara sé á tilboði (t.d. 10% afslætti) þegar í raun er aðeins verið að selja hana við því verði sem almennt gildir í viðkomandi verslun.
  • Kjötbirgjunum er veittur sami aðlögunartími og verslunum Haga til að breyta fyrirkomulagi við verðmerkingar á kjöti. Þannig skulu þeir fyrir 1. mars 2011 hætta að merkja staðlaðar vörur með smásöluverði og eftir 1. júní 2011 skulu allar vörur þeirra verða afgreiddar án smásöluverðmerkinga. Gildir þetta gagnvart Högum og öllum öðrum endurseljendum sem eru í viðskiptum við kjötbirgjana. Á þetta einnig við um vörur sem framleiddar eru undir vörumerkjum viðkomandi verslana eða verslanakeðja.
  • Kjötbirgjunum er óheimilt að gefa út eða birta leiðbeinandi eða fast smásöluverð á vörum sínum, s.s. með útgáfu á verðlistum.

Mikilvægt að breytingarnar takist vel

Aðlögunarfrestur er veittur til þess að hætta merkingum kjötvinnslufyrirtækja á smásöluverði (1. mars og 1. júní, sbr. framangreint). Aðilar málsins og verslanir eða kjötvinnslufyrirtæki sem ákvörðunin hefur áhrif á verða að nýta sér þennan frest til að ákveða nýtt fyrirkomulag á verðmerkingum á kjötvörum. Við útfærslu á því þarf að hafa í huga lög og reglur um verðmerkingar og verðupplýsingar.

Til þess að vel takist til um breytingarnar er mikilvægt að viðkomandi fyrirtæki, hagsmunasamtök neytenda og stjórnvöld á þessu sviði undirbúi breytingarnar vel og hafi hagsmuni neytenda af virkri samkeppni og skýrum verðmerkingum að leiðarljósi við framkvæmd þeirra.

Niðurstaða þessa máls er liður í almennri viðleitni Samkeppniseftirlitsins að tryggja að samstarf m.a. kjötbirgja og matvöruverslana raski ekki samkeppni. Má búast við að eftirlitið beiti sér frekar á þessu sviði og gagnvart fyrirtækjum sem ekki eru hluti af framangreindu stjórnsýslumáli.

Bakgrunnsupplýsingar:

  • Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem horft var til við mat á sektum. Litið var m.a. til alvarleika brotanna sem voru til þess fallin að valda röskun á samkeppni á mikilvægum mörkuðum. Einnig var horft til styrkleika viðkomandi fyrirtækja og stöðu þeirra á einstökum mörkuðum. Þá var litið til þess í hvaða röð aðilar óskuðu eftir að gera sátt við Samkeppniseftirlitið sem og samstarfsvilja þeirra við að upplýsa brotin og vilja þeirra til að gera breytingar í starfsemi sinni til frambúðar til að koma í veg fyrir að sambærileg brot á samkeppnislögum endurtaki sig. Einnig var höfð hliðsjón af upplýsingum, eftir því sem við átti, um fjárhagsstöðu fyrirtækjanna. Umrædd fyrirtæki hafa í samskiptum við Samkeppniseftirlitið lagt á það áherslu að þau hafi ekki haft ásetning til þess að raska samkeppni og að við mat á eðli málsins verði að horfa til þess að löng hefð sé fyrir forverðmerkingum hjá öllum fyrirtækjum á matvörumarkaði.
  • Í maí 2008 gaf Samkeppniseftirlitið út skýrslu um viðskiptasamninga birgja og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði. Í skýrslunni kom m.a. fram að takmörkuð samkeppni kynni að vera í sölu á forverðmerktum kjötvörum, þ.e. pökkuðu kjöti og öðrum meira unnum kjötvörum (t.d. áleggi, pylsum, kæfu og fleiru) sem eru verðmerktar fyrirfram fyrir verslanir með svokölluðu leiðbeinandi smásöluverði. Í skýrslunni var ekki tekin afstaða til þess hvort um brot á samkeppnislögum væri að ræða heldur boðað að sérstakar stjórnsýslurannsóknir myndu hefjast í kjölfarið til að leggja mat á hvort samkeppnislög hefðu verið brotin.
  • Rannsókn og afmörkun þessa tiltekna máls hófst eftir útgáfu umræddrar skýrslu. Hefur Samkeppniseftirlitið aflað viðamikilla upplýsinga vegna rannsóknarinnar hjá viðkomandi aðilum. Tölvupóstar og önnur gögn hafa varpað ljósi á samskipti birgja og Haga vegna forverðmerkinga. Þessi rannsókn leiddi til þess að Samkeppniseftirlitið kynnti Högum og viðkomandi kjötvinnslustöðvum frumniðurstöðu sína um brot á samkeppnislögum í júlí sl.
  • Samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið lokið málum með sátt ef fyrirtæki sem til rannsóknar eru stíga fram og viðurkenna brot á samkeppnislögum. Slíkur samstarfsvilji og vilji til þess að gera jákvæðar breytingar á hegðun á markaði flýta rannsókn og niðurstöðu mála.
  • Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga banna alla samninga eða samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja sem raskað geta m.a. verðsamkeppni.
  • Ólögmætir samningar eða samstilltar aðgerðir milli framleiðenda og smásala (lóðrétt samráð) sem lúta að smásöluverði falla ekki undir refsiákvæði samkeppnislaga heldur varða aðeins viðkomandi fyrirtæki stjórnvaldssektum.

Fréttatilkynningin í PDF skjali, opnast í nýjum glugga.

Sjá nánar ákvörðun nr. 33/2010.