23.6.2004

Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Samkeppnisstofnun var með lögum nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu falið eftirlit með þeim ákvæðum laganna sem lúta að upplýsingaskyldu þeirra sem láta í té rafræna þjónustu. Eitt af markmiðum lagasetningarinnar er að efla traust til rafrænnar þjónustu meðal annars með því að skylda þann sem veitir þjónustu á Internetinu til að gefa tilteknar staðlaðar lágmarksupplýsingar um sig. Neytendavernd í rafrænum viðskiptum skal þannig ekki vera lakari en í hefðbundnum viðskiptum.

Íslendingar standa framarlega í notkun upplýsingatækni. Í Hagtíðindum, sem gefin voru út þann 15. mars 2004, er að finna niðurstöður tveggja rannsókna sem Hagstofan framkvæmdi á notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og Interneti í desember 2002 og maí 2003. Þar kemur m.a. fram að 78% heimila hafa tengingu við Internetið. Árið 2002 var tæplega 10. hver einstaklingur með eigin vefsíðu á Internetinu. Árið 2003 hafði fimmti hver einstaklingur á aldrinum 16–74 ára, sem könnunin tók til, pantað eða keypt vöru eða þjónustu um Internetið.

Þann 27. janúar 2004 gaf Hagstofan út niðurstöður könnunar um notkun fyrirtækja á upplýsingatæknibúnaði og rafrænum viðskiptum 2003. Þar kemur fram að 97% íslenskra fyrirtækja eru með tengingu við Internetið; 70% allra fyrirtækja eru með eigin vefsetur; fimmta hvert fyrirtæki seldi vöru eða þjónustu af vefsíðu árið 2002 og 37% fyrirtækja keypti vöru eða þjónustu um Internetið sama ár.

Rafræn viðskipti geta haft marga kosti í för með sér fyrir neytendur. Viðskiptin geta verið hentugri og ódýrari en hefðbundin viðskipti. Tiltrú neytenda á rafrænum viðskiptum hefur afgerandi áhrif á þróun viðskiptanna og skiptir þar mestu að neytendur treysti þeim sem að þeim standa. Grundvöllur slíkra viðskipta er að þjónustuveitandinn veiti aðgengilegar og ítarlegar upplýsingar um sig. Þá verður neytandinn einnig að vera nægjanlega upplýstur um vöruna og þjónustuna, verð, greiðslu- og afhendingarskilmála, kvörtunar- og skilarétt ásamt tæknilegu öryggi. Notendavænar vefsíður skipta því miklu máli við val neytenda á verslunarstað.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).