31.1.2005

Úrskurður Áfrýjunarnefndar í máli olíufélaganna gegn Samkeppnisráði

Í dag kvað áfrýjunarnefnd samkeppnismála upp úrskurð í máli olíufélaganna gegn samkeppnisráði. Höfðu félögin kært til áfrýjunarnefndar ákvörðun samkeppnisráðs um ólögmætt samráð félaganna.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála er m.a. staðfest sú niðurstaða samkeppnisráðs að olíufélögin hafi um níu ára skeið haft með sér skipulagt, umfangsmikið, samfellt ólögmætt samráð. Þá er ekki tekið undir þau sjónarmið olíufélaganna að brot félaganna á samkeppnislögum hafi verið fyrnd eða að málsmeðferð og rannsókn málsins hafi verið svo ábótavant að ógilda bæri niðurstöðu samkeppnisráðs. Þvert á móti má lesa úr úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að rannsókn samkeppnisyfirvalda hafi verið vönduð. Áfrýjunarnefndin staðfestir einnig í meginatriðum niðurstöður samkeppnisráðs um einstök alvarleg brot olíufélaganna á samkeppnislögum.

Þrátt fyrir að áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti þá niðurstöðu samkeppnisráðs að ávinningur olíufélaganna í formi sk. einingaframlegðar á fljótandi eldsneyti hafi hækkað á tímabilinu 1996-2001 í samanburði við árin 1993-1995 um 6,5 milljarða króna taldi nefndin ástæðu til að lækka þær sektir sem samkeppnisráð hafði ákvarðað olíufélögunum. Þannig ákveður áfrýjunarnefnd stjórnvaldssekt á hendur Olíufélaginu ehf. að fjárhæð 900 m. kr. Vegna samstarfs við samkeppnisyfirvöld við að upplýsa málið er Olíufélaginu gert að greiða 490 m.kr. Samkeppnisráð hafði lagt á 1.100 m.kr. sekt og ætlað félaginu að greiða 605 m. kr. Skeljungi hf. er gert að greiða 450 m.kr. í stað 1.100 m. kr. sem samkeppnisráð hafði ákvarðað og Olíuverslun Íslands hf. er ákvörðuð 700 m.kr. stjórnvaldssekt og til greiðslu 560 m.kr. í stað 880 m. kr. í ákvörðun samkeppnisráðs.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).