12.9.2016 Páll Gunnar Pálsson

Samkeppni á dagvörumarkaði

Pistill 2/2016  - Í tilefni af grein Haraldar Benediktssonar

Mynd: Páll Gunnar Pálsson forstjóri SamkeppniseftirlitsinsHaraldur Benediktsson alþingismaður skrifaði grein í Morgunblaðið þann 23. ágúst sl., undir yfirskriftinni „öðruvísi samkeppniseftirlit“. Þar gefur hann íslensku samkeppniseftirliti falleinkunn og lætur m.a. að því liggja að það hafi gleymt að hugsa um litlu fyrirtækin. Tiltekur hann sérstaklega að Samkeppniseftirlitið hafi látið óátalið að markaðsráðandi aðilar selji vörur sínar undir kostnaðarverði.

Greinin er gott tilefni til þess að rifja upp eftirtaldar aðgerðir Samkeppniseftirlitsins á dagvörumarkaði:

  1. Árið 2010 staðfesti Hæstiréttur Íslands niðurstöðu um brot Haga á samkeppnislögum.  Hafði  Samkeppniseftirlitið sektað Haga um 315 milljónir króna fyrir að hafa verðlagt mjólkurvörur undir kostnaðarverði. Var sú aðgerð talin alvarleg misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins.
    Með ákvörðuninni voru Högum sett skýr mörk. Leiddi hún m.a. til þess að fyrirtækið varð að láta af þeirri stefnu sinni að bjóða ávallt lægra verð en keppinautarnir, en í slíkri verðstefnu felst að smærri verslunum gefst aldrei kostur á að bjóða lægsta verð sem skaðar samkeppni til lengri tíma litið.
  2. Árið 2010 beindi Samkeppniseftirlitið því til Arion banka, sem þá hafði eignast Haga, að selja fyrirtækið í fleiri en einum hluta í því skyni að auka samkeppni. Afréð bankinn að selja verslunarkeðjuna 10-11 frá Högum. Sjá nánar ákvörðun nr. 6/2010.
  3. Árið 2010 sektaði Samkeppniseftirlitið Haga um 270 milljónir króna og sex kjötvinnslufyrirtæki um samtals 135 milljónir króna vegna ólögmæts samráðs um smásöluverð í verslunum. Í mörgum tilvikum voru þessir aðilar að semja um afslætti frá verði sem í raun stóð aldrei til að bjóða neytendum í viðkomandi verslunum. Í því skyni að binda enda á þessa háttsemi og efla samkeppni var lagt bann við því að kjötvinnslufyrirtæki merktu vörur með smásöluverði fyrir verslanir.
    Framangreind fyrirtæki gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið um þessa niðurstöðu, sbr. ákvörðun nr. 33/2010. Ekki varð sátt um niðurstöðu sömu rannsóknar gagnvart Síld og fiski ehf. og Matfugli ehf. Var móðurfélag þessara fyrirtækja sektað um 80 milljónir króna vegna brotanna. Sú niðurstaða var staðfest í Hæstarétti árið 2014.
  4. Á árunum 2008 og 2009 sektaði Samkeppniseftirlitið nokkur samtök atvinnufyrirtækja fyrir brot á samkeppnislögum, sem voru til þess fallin að hækka verð á dagvöru til neytenda. Sjá nánar ákvarðanir nr. 10/2008, 5/2009 og 9/2009.
  5. Árið 2012 gaf Samkeppniseftirlitið úr skýrsluna Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði“ (nr. 1/2012). Þar er m.a. gerð grein fyrir rannsókn eftirlitsins á kjörum sem dagvöruverslanir njóta hjá birgjum. Í ljós kom að smærri verslanir greiddu birgjum að meðaltali 15% hærra verð en stærsta verslanasamstæðan, Hagar. Smærri verslanir hefðu því litla möguleika á verðsamkeppni.
    Í skýrslunni hvatti Samkeppniseftirlitið birgja til að endurskoða verðstefnu sína að þessu leyti, einkum og sér í lagi gagnvart minni dagvöruverslunum. Hefur eftirlitið fylgt skýrslunni eftir, m.a. með rannsóknum á verðlagningu tiltekinna birgja. Á árinu 2015 var að nýju tekin staða á þessu álitaefni, sbr. skýrslu nr. 1/2015.
  6. Fyrr í sumar komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Mjólkursamsalan (MS) hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart minni keppinauti, með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu þetta hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði. Skaðaði þessi háttsemi því samkeppni milli birgja á dagvörumarkaði. Sjá nánar ákvörðun nr. 19/2016.
    Forveri MS, Osta- og smjörsalan, hafði áður misnotað markaðsráðandi stöðu sína með sambærilegum hætti, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 39/2006.

 Betur má ef duga skal

Af þessu er ljóst að grein Haraldar byggir í meginatriðum á röngum staðhæfingum. Nægir að nefna þá fullyrðingu að Samkeppniseftirlitið hafi látið undirverðlagningu markaðsráðandi fyrirtækja óátalda.

Framangreind upptalning er ekki tæmandi um aðgerðir samkeppnisyfirvalda á dagvörumarkaði. Sömuleiðis er ljóst að fleiri verkefni eru framundan, til þess að efla samkeppni. 

Til að stuðla að úrbótum á markaðnum birti Samkeppniseftirlitið í fyrra skýrslu undir heitinu Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði“ (nr. 1/2015). Í 2. kafla skýrslunnar er að finna yfirlit yfir aðgerðir og umfjöllun samkeppnisyfirvalda um mikilvæg álitaefni á markaðnum og úrræði til að efla samkeppni. Með skýrslunni var því beint til þeirra sem starfa á markaðnum að draga lærdóm af þessum fyrri úrlausnum samkeppnisyfirvalda.

 

Um leið er skýrslan gagnlegt yfirlit fyrir þá sem vilja fjalla um samkeppni á dagvörumarkað á grunni réttra upplýsinga.  

 

[Pistill þessi var birtur sem grein Morgunblaðinu þann 25. ágúst 2016.]