Samkeppni Logo

Samruni DAC ehf. og Lyfjavers ehf.

Reifun

Í mars sl. keypti fyrirtækið DAC ehf. lyfsölufyrirtækið Lyfjaver ehf. DAC og Lyfjaver annast innflutning lyfja, heildsölu og lyfjaskömmtun fyrir einstaka sjúklinga og sjúklinga á stofnunum. Auk þess rekur Lyfjaver apótek m.a. í samkeppni við apótek í eigu Lyfja og heilsu hf. sem er í sömu fyrirtækjasamstæðu og DAC.

Ásamt því að kaup DAC á Lyfjaveri fela í sér samruna í skilningi samkeppnislaga fela þau í sér samruna Lyfja og heilsu og Lyfjavers. Með ákvörðun frá 11. júlí hefur Samkeppniseftirlitið ógilt umræddan samruna.

Að óbreyttu hefði skaðlegra áhrifa samrunans sem hér um ræðir aðallega gætt á markaði fyrir smásölu lyfja og á markaði fyrir sk. skömmtun lyfja fyrir sjúklinga.

Mikil samþjöppun hefur orðið á lyfsölumarkaðnum á síðustu árum. Samruninn hefði leitt til þess að tvær lyfsölukeðjur, Lyf og heilsa annars vegar og Lyfja hf. hins vegar, hefðu rúmlega fjóra fimmtu hluta allrar lyfjasmásölu í landinu. Að mati Samkeppniseftirlitsins deila Lyf og heilsa sameiginlegri markaðsráðandi stöðu með Lyfju á smásölumarkaði lyfja. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að sameiginleg markaðsráðandi staða Lyfja og heilsu og Lyfju eins og henni er lýst í ákvörðun eftirlitsins geri fyrirtækjunum kleift að samhæfa hegðun sína á markaðnum án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. Eru fyrirtækin þannig í stöðu til þess að takmarka samkeppni og hækka verð. Ef umræddur samruni hefði gengið eftir hefði þessi staða orðið enn alvarlegri í samkeppnislegu tilliti. Hefði samruninn því haft í för sér umtalsverða röskun á samkeppni og skaðað hag þeirra sem þurfa á lyfjum að halda.

Á undanförnum árum hefur orðið til sérstakur markaður sem felst í því að selja og pakka lyfjum í notkunarskammta bæði fyrir einstaka sjúklinga og fyrir sjúklinga á stofnunum. Hér er um stækkandi markað að ræða með ársviðskipti sem nema nokkrum hundruðum milljóna króna. Lyfjaver var fyrsta fyrirtæki hér á landi til að hasla sér völl á þessum markaði. Þar starfa nú einnig fyrirtækið Lyfjalausnir sem er í eigu Lyfju og áðurnefnt DAC, systurfélag Lyfja og heilsu. Með samrunanum sem hér um ræðir hefði fyrirtækjunum á þessum markaði fækkað úr þremur í tvö sem bæði hefðu verið tengd lyfsölukeðjunum tveimur. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hefði leitt til yfirburðastöðu DAC á markaðnum fyrir lyfjaskömmtun og hindrað samkeppni á honum. Í krafti stöðu sinnar hefði félagið takmarkað samkeppni og getað hagað verðlagningu, þjónustu og viðskiptaskilmálum að verulegu leyti án tillits til keppinauta eða viðskiptavina.
  
Með vísan til framanritaðs var samruni Lyfja og heilsu (DAC) og Lyfjavers ógiltur í dag, 11. júlí, með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið tók til athugunar hvort unnt væri að heimila samrunann með skilyrðum sem leiðréttu hinar samkeppnislegu afleiðingar hans og leitaði eftir tillögum samrunaaðila í því efni.  Ekki reyndust forsendur til að samþykkja samrunann með skilyrðum.  Að mati Samkeppniseftirlitsins var ógilding samrunans þar af leiðandi eina færa leiðin til að komast hjá þeim skaða fyrir samkeppni sem leiða myndi af samrunanum á þeim mörkuðum þar sem áhrifa hans gætir.

Máli þessu var áfrýjað; sjá Úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 6/200

Ákvarðanir
Málsnúmer

28 / 2006

Dagsetning
20060711
Fyrirtæki

DAC ehf

Lyfjaver ehf.

Atvinnuvegir

Lyf, stoðtæki (t.d. gleraugu) og tengdar vörur

Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.

Málefni

Samrunamál

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.