Erlent samstarf Samkeppniseftirlitsins

Samkeppniseftirlitið tekur þátt í erlendu samstarfi sem undir verksvið þess heyrir. Það tekur þátt í norrænu samstarfi, evrópsku samstarfi og einnig í víðfeðmara alþjóðlegu samstarfi.
Erlenda samstarfið felst í þátttöku í fundum í nefndum og hópum sem fjalla um samkeppnismál og -reglur og verkefnavinnu í vinnuhópum sem fjalla um afmarkaða þætti samkeppnismála. Markmið erlends samstarfs er að efla tengsl samkeppnisyfirvalda innbyrðis með það fyrir augum að auka þekkingu þeirra sem starfa við rekstur samkeppnismála svo og að rannsaka og bregðast við samkeppnislegum álitaefnum á tilteknum mörkuðum.

Samkeppniseftirlitið tekur þátt í þeim verkefnum sem mestu skipta fyrir starfsemi þess.

Samkeppnisyfirvöld Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands, Færeyja og Grænlands hafa reglubundið samstarf sín á milli.

Á reglulegum fundum hinna norrænu samkeppnisyfirvalda er fjallað um samkeppnismál á almennum grundvelli, breytingar á lögum og reglum og einstök mál, ákvarðanir og dóma, sem hafa almenna skírskotun. Þá er ennfremur fjallað um rekstur samkeppniseftirlitanna, málshraða og árangur.

Vinnuhópar eru starfandi á tilteknum sviðum auk þess sem árlega hefur verið unnið að sértækum verkefnum í vinnuhópum sem hafa birt niðurstöður vinnu sinnar í skýrslum sem norrænu samkeppnisyfirvöldin gefa út. Dæmi um slíkar skýrslur eru skýrsla um Samkeppni og efnahagskreppur (2009) , skýrsla um samkeppnisstefnu og vistvænan hagvöxt (2010) og skýrsla um framtíðarsýn og samkeppni – samkeppnisstefnu fram til 2020 (2013) .

Þá er í gildi samstarfssamingur milli Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samstarf í samkeppnismálum. Upphaflegi samningurinn milli Danmerkur, Íslands og Noregs var undirritaður 2001 en viðaukasamningur þar sem Svíþjóð bættist m.a. við var undirritaður 2003.

Norrænu eftirlitin undirrituðu síðan nýjan samning 2017 og er hann einnig aðgengilegur á íslensku.

Samkeppniseftirlitið tekur annars vegar þátt í samstarfi á grundvelli EES samningsins og hins vegar í samstarfi evrópskra samkeppnisyfirvalda

Samstarf á grundvelli EES samningsins
Fundir í ráðgjafanefndum ESB um samkeppnismál og samruna eru haldnir á vegum framkvæmdastjórnar ESB (EU Competition Advisory Committee / EU Mergers Advisory Committee) og hefur Samkeppniseftirlitið áheyrnarfulltrúa þar. Samskonar fundir eru haldnir í ráðgjafanefndum ESA og hefur Samkeppniseftirlitið fulla aðild á þeim fundum.

Samkeppniseftirlitið tekur þátt í samstarfi á vegum European Competition Network (ECN), en í því felst samstarf samkeppnisyfirvalda aðildarríkja ESB, EFTA, ESA og framkvæmdastjórnarinnar. Markmið þess samstarfs er að fara yfir einstök samkeppnismál sem til umfjöllunar eru hverju sinni hjá samkeppnisyfirvöldum ESB auk almennrar stefnumótunar á sviði samkeppnismála. Í því skyni hafa verið settir á laggirnar allmargir vinnuhópar sem fjalla um einstök svið samkeppnismála. Má þar t.d. nefna vinnuhóp um misnotkun á markaðsráðandi stöðu, vinnuhóp um samrunamál, vinnuhóp um orkumál auk vinnuhóps um fjarskiptamarkað.

Samkeppniseftirlitið tekur þátt í fundum í vinnuhópi EFTA um samkeppnismál. Sá hópur tekur til skoðunar alla nýja löggjöf ESB um samkeppnismál og metur hvort hún verði hluti af EES-samningnum eða ekki og þá hvort aðlaga þurfi nýja löggjöf að EES samningnum (http://www.efta.int/).

Forstjórar samkeppniseftirlita eru boðaðir til fundar einu sinni á ári af framkvæmdastjórn ESB. Samkeppniseftirlitið hefur sótt þessa fundi.

Samstarf samkeppnisyfirvalda ESB og EFTA (European Competition Authorities)
Um er að ræða óformlegt samstarf þar sem m.a. er farið yfir framkvæmd samkeppnisreglna og stefnumótun. Til að skoða einstaka samkeppnismarkaði eða einstök álitaefni hafa verið stofnaðir vinnuhópar, en innan þess samstarfs eru starfandi vinnuhópar um samkeppnismál s.s. samrunavinnuhópur, vinnuhópur um orkumál, vinnuhópur um fjölmiðla, vinnuhópur um sakaruppgjöf o.fl.

Heimasíða ECA

Þátttaka Samkeppniseftirlitsins í alþjóðlegu samstarfi er tvíþætt

  1. ICN (International Competition Network) eru alþjóðleg samtök samkeppniseftirlita. Fundir eru haldnir reglulega auk þess sem vinnuhópar um hin ýmsu samkeppnismál halda fundi sérstaklega. Samkeppniseftirlitið er aðili að þessu samstarfi.

    Tengill á leiðbeiningar ICN sem stuðla að árangursríku ferli samkeppnisyfirvalda.

  2. OECD (Efnahags- og framfarastofnun Evrópu) fjallar í sérstökum nefndum og vinnuhópum um samkeppnismál. Jafnframt tekur OECD til skoðunar stöðu samkeppnismála í einstökum aðildarríkjum.