Skipulag

Skipulag Samkeppniseftirlitsins er sniðið að árangurs- og verkefnastjórnun. Miðar skipulagið almennt að því að góð yfirsýn sé bæði yfir tiltekna kjarnamarkaði sem og meginverkefni, að fyrirliggjandi þekking og reynsla nýtist á hverjum tíma í þau verkefni sem vinna þarf og að Samkeppniseftirlitið og einstakar einingar þess vinni einnig saman sem ein heild.

Á árinu 2018 gerði Samkeppniseftirlitið breytingar á skipulagi sínu. Miðuðu þær breytingar einkum að því að:

  • Skýra betur verkaskiptingu og hlutverk starfsmanna og færa að þeirri þróun sem orðið hefur.
  • Styrkja hagfræðilega nálgun í starfi SE.
  • Bæta verklag við meðferð mála.
  • Bæta forgangsröðun.
  • Styrkja samskipti og samstarf við aðrar stofnanir.

Stefnumótun

Samkeppniseftirlitið byggir starfsemi sína á skýrri stefnumótun sem reglulega er tekin til endurskoðunar og byggir á skýrum markmiðum. Stefnan byggir á eftirfarandi meginþáttum:

  • Mannauðsstefnu þar sem kappkostað er að Samkeppniseftirlitið hafi á hverjum tíma úrvals starfsfólk á sínum snærum, sem býr við fyrsta flokks starfsaðstöðu, símenntun og jafnrétti
  • Innri ferlum sem stuðla að fagmennsku
  • Skýrri sýn á árangur af verkefnum stofnunarinnar

Samkeppniseftirlitið framfylgir stefnu sinni með því að setja sér markmið og leitast við að setja markmiðum sínum mælikvarða sem reglulega er fylgst með. Þessi vinna byggir á aðferðafræði árangursstjórnunar (e. “balanced scorecard”) en í því felst m.a. að stofnunin hefur sett sér svokallað stefnukort, þar sem meginmarkmið hennar eru sett fram í fjórum grunnstoðum starfseminnar, þ.e. fjármálum, mannauði, innri ferlum og afrakstri.

Samkeppniseftirlitið hefur mótað mælikvarða sem byggja á nánar útfærðum markmiðum stefnukortsins. Jafnframt hefur eftirlitið þróað mælanleg viðmið til að fylgjast með árangri starfseminnar og móta áherslur með hliðsjón af árangri. Samkeppniseftirlitið hefur tekið upp og lagað verkstjórnar- og gagnakerfi og kerfisbundna tímaskráningu verkefna að þessu.

Stjórn Samkeppniseftirlitsins fjallar á hverju ári um áherslur eftirlitsins og endurskoðar þær með hliðsjón af fenginni reynslu og mati á því hvaða áskoranir séu framundan. Í tengslum við þetta er eftir atvikum efnt til umræðu við aðila á vettvangi neytenda, atvinnulífs og fræðasamfélagsins.