Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Yfirtaka Íslandsbanka hf. og Glitnis banka hf. á Bláfugli ehf.

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 8/2011
 • Dagsetning: 16/3/2011
 • Fyrirtæki:
  • Glitnir banki hf.
  • Bláfugl ehf.
 • Atvinnuvegir:
  • Samgöngur og ferðamál
  • Flugþjónusta
 • Málefni:
  • Samrunamál
 • Reifun

  Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun nr. 8/2011 sett yfirráðum Íslandsbanka og Glitnis yfir Bláfugli skilyrði. Bláfugl er fraktflugfélag sem verið hefur undir yfirráðum Icelandair Group. Verður það nú undir yfirráðum eignarhaldsfélagsins SPW sem Íslandsbanki og Glitnir hafa stofnað sameiginlega.

  Þau skilyrði sem Samkeppniseftirlitið hefur sett yfirtöku Íslandsbanka og Glitnis á Bláfugli miða að því að flýta sölu fyrirtækisins og draga að öðru leyti úr samkeppnisröskun sem stafað getur af eignarhaldi banka á fyrirtækinu. Hafa Íslandsbanki og Glitnir undiritað sátt um málið og fallist á að hlíta skilyrðunum. Helstu skilyrði eru eftirfarandi:

  • Selja skal Bláfugl innan tiltekins tíma. Um sölufrestinn ríkir trúnaður, enda gætu slíkir tímafrestir, ef opinberir væru, haft óeðlileg áhrif á söluferli og söluverð.
  • Tryggja skal fullt sjálfstæði milli annars vegar Bláfugls og hins vegar keppinauta Bláfugls, sem Íslandsbanki eða Glitnir eiga eða kunna að eignast eignarhluti í. Tekur þetta m.a. til sjálfstæðis gagnvart Icelandair Cargo, keppinauti Bláfugls, en Íslandsbanki á hagsmuni að gæta í því fyrirtæki vegna eignarhluts í Icelandair Group.

  • Jafnframt eru sett ýmis skilyrði sem eiga að tryggja að Bláfugl starfi að öðru leyti sem sjálfstæður keppinautur á markaði og keppi á eðlilegum grundvelli. M.a. skal setja fyrirtækinu eðlilegar arðsemiskröfur auk þess sem Íslandsbanka er bannað að hlutast til um viðskipti Bláfugls við viðskiptavini bankans eða önnur fyrirtæki sem bankinn eða Glitnir eiga hlut í.

  Á árinu 2005 heimiluðu samkeppnisyfirvöld kaup FL Group á Bláfugli með tilteknum skilyrðum. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi, var fjallað sérstaklega um samkeppnisaðstæður í fraktflugi til og frá Íslandi. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægar forsendur þess að umræddur samruni var samþykktur hefðu ekki gengið eftir. Með vísan til þess beindi Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til Icelandair Group að félagið seldi Bláfugl frá sér til ótengds aðila. Taldi eftirlitið að með því yrði komið á virkari samkeppni á markaðnum neytendum til hagsbóta.

  Yfirtaka Íslandsbanka og Glitnis á Bláfugli, sem um leið hverfur úr Icelandair Group samsteypunni, ásamt áformum um sölu á fyrirtækinu, er í samræmi við fyrrgreind tilmæli Samkeppniseftirlitsins.