Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Brot Mjólkursamsölunnar ehf. á samkeppnislögum

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 19/2016
 • Dagsetning: 7/7/2016
 • Fyrirtæki:
  • Mjólkursamsalan ehf.
 • Atvinnuvegir:
  • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Landbúnaður
 • Málefni:
  • Markaðsyfirráð
 • Reifun

  Samkeppniseftirlitið hefur með nýrri ákvörðun sem birt er í dag (nr. 19/2016) lagt 480 m.kr. stjórnvaldssekt á Mjólkursamsöluna ehf. (MS) vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum. MS misnotaði markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu þetta hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði. Var þetta til þess fallið að veita MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Með þessu móti var geta keppinauta til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti, en það er til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda og bænda. Þá liggur fyrir að MS veitti Samkeppniseftirlitinu rangar upplýsingar og lét undir höfuð leggjast að upplýsa eftirlitið um mikilvæg gögn. Hefur það tafið úrlausn málsins og skaðað samkeppni. Fyrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (nr. 26/2014) var felld út gildi af áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Lagði áfrýjunarnefndin fyrir Samkeppniseftirlitið að taka á ný afstöðu til málsins þar sem MS hafði lagt fyrir nefndina ný gögn, sem ekki höfðu verið afhent eftirlitinu við meðferð málsins. Með ákvörðuninni sem birt er í dag hefur Samkeppniseftirlitið lokið þeirri rannsókn sem áfrýjunarnefnd mælti fyrir um.

  Ákvörðun SE nr. 26/2014 Misnotkun Mjókursamsölunar ehf á markaðsráðandi stöðu sinni