Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Endurupptaka á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 40/2014, Misnotkun Securitas hf. á markaðsráðandi stöðu sinni

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 45/2017
 • Dagsetning: 15/12/2017
 • Fyrirtæki:
  • Securitas hf.
 • Atvinnuvegir:
  • Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta
  • Ýmis þjónusta sem ekki er tilgreind annars staðar
 • Málefni:
  • Markaðsyfirráð
 • Reifun

  Þann 19. desember 2014 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Securitas hf. hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. EES-samningsins, sbr. ákvörðun nr. 40/2014, Misnotkun Securitas hf. á markaðsráðandi stöðu sinni, og lagði á Securitas kr. 80 millj. stjórnvaldssekt. Brot Securitas fólust í því að fyrirtækið gerði einkakaupasamninga við viðskiptavini sína um Heimavörn og Firmavörn, en samningarnir fólu í sér að viðskiptavinunum var óheimilt að eiga viðskipti við aðra þjónustuaðila um nokkurra ára skeið. Einnig voru í samningunum ákvæði sem voru til þess fallin að skapa aukna tryggð viðskiptavina við Securitas.

  Securitas kærði þessa ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sbr. mál nr. 1/2015. Með kærunni voru lögð fram gögn sem ekki lágu fyrir þegar Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun sína. Taldi Securitas að þessar nýju upplýsingar hefðu þýðingu við mat á háttsemi fyrirtækisins sem leiddi til ákvörðunar nr. 40/2014. Nýju upplýsingarnar lutu að kostnaði Securitas við gerð viðskiptasamninga um öryggisþjónustu. Undir meðferð áfrýjunarnefndar óskaði Securitas því eftir endurupptöku á ákvörðun nr. 40/2014, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

  Samkeppniseftirlitið féllst á að endurupptaka málið á grundvelli ákveðinna forsendna sem nánar eru raktar í ákvörðuninni. Var í endurupptekna málinu lagt nýtt mat á kostnað Securitas við gerð viðskiptasamninga um öryggisþjónustu auk þess sem tekið var til skoðunar hvort upplýsingagjöf Securitas sem leiddi til ákvörðunar nr. 40/2014 hefði verið í samræmi við 19. gr. samkeppnislaga. Málinu lauk með sátt Samkeppniseftirlitsins og Securitas þar sem fyrirtækið gengst við að hafa brotið gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga og 54. gr. EES-samningsins og greiðir stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 40. millj. auk þess sem lögð eru ákveðin skilyrði á Securitas.