Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar samruna Reita fasteignafélags hf. og Vínlandsleiðar ehf. Reitir er fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Fyrir viðskiptin er fasteignasafn þeirra um 445.000 fermetrar að stærð. Helstu fasteignir í eigu félagsins eru Kringlan, Kauphallarhúsið, Höfðabakki 9 og Holtagarðar ásamt fjölmörgum verðmætum fasteignum í miðbæ Reykjavíkur. Félagið er skráð í Kauphöll Íslands og er í dreifðu eignarhaldi. Vínlandsleið er fasteignafélag sem leigir út fasteignir til atvinnustarfsemi og hefur yfir að ráða tæplega 18.000 fermetrum af atvinnuhúsnæði. Um er að ræða fimm fasteignir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að þau viðskipti sem hér eiga sér stað fela í sér óverulega samþjöppun á skilgreindum markaði þessa máls. Að undangenginni rannsókn er það niðurstaða eftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna þessa samruna á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.
20 / 2018
Reitir fasteignafélag hf.
Vínlandsleið ehf.
Fjármálaþjónusta
Samrunamál
"*" indicates required fields