Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun nr. 8/2019, Samruni N1 hf. og Festi hf. Ákvörðunin
er grundvölluð á sátt eftirlitsins og samrunaaðila, dags. 30. júlí 2018. N1 er
stærsti smásali eldsneytis á Íslandi. Festi (í dag Hlekkur ehf.) er næststærsti
smásali dagvöru á landinu og rekur félagið meðal annars verslanir Krónunnar.
Rannsókn málsins leiddi í ljós að samruninn, án skilyrða,
væri til þess fallinn að raska samkeppni með umtalsverðum hætti. Nánar tiltekið
var það mat eftirlitsins að samruninn myndi leiða til brotthvarfs Krónunnar sem
mögulegs keppinautar á eldsneytismarkaði, leiða til staðbundinnar röskunar á
samkeppni á tilteknum landsvæðum, hafa skaðleg áhrif á heildsölu- og
birgðastigi og hafa í för með sér aukin og skaðleg eignatengsl á milli
keppinauta á bæði eldsneytis- og dagvörumarkaði.
Rannsókn málsins lauk með undirritun sáttar á milli
Samkeppniseftirlitsins og N1, dags. 30. júlí 2018. Með sáttinni skuldbatt N1 sig til aðgerða sem
miða að því að efla og vernda virka samkeppni á eldsneytis- og dagvörumörkuðum
og bregðast við framangreindri röskun á samkeppni sem samruninn hefði annars
leitt til.
Skilyrði sáttarinnar fólu m.a. í sér sölu eigna á
eldsneytismarkaði til nýs aðila þar sem Krónan taldist líklegur keppinautur N1
á markaðnum. Að undangenginni sölumeðferð og athugun óháðs kunnáttumanns, sem
skipaður var í ágúst 2018 til að hafa eftirlit með framkvæmd sáttarinnar,
samþykkti Samkeppniseftirlitið kaupendur hinna seldu eigna í febrúar og mars
2019.
Samantekt á niðurstöðu málsins og þeim skilyrðum sem sett
hafa verið vegna samrunans er að finna í kafla V.4 í ákvörðuninni.
Ákvörðunin er grundvölluð á fyrrgreindri sátt og tilgangur
hennar er að veita samrunaaðilum, keppinautum þeirra, öðrum fyrirtækjum sem
telja sig hafa hagsmuna að gæta og öðrum þeim sem hafa áhuga á samrunanum,
upplýsingar og skýringar á markmiði þeirra ráðstafana sem fram koma í sáttinni.
8 / 2019
Festi hf.
N1 hf.
Matvörur
Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
Olíuvörur og gas
Samrunamál
"*" indicates required fields