Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Brot Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 11/2015
 • Dagsetning: 15/5/2015
 • Fyrirtæki:

  Engin fyrirtæki finnast

 • Atvinnuvegir:

  Enginn atvinnuvegur finnst

 • Málefni:

  Engin málefni finnast

 • Reifun

  Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, sem birt er í dag, er komist að þeirri niðurstöðu að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna á því tímabili sem rannsóknin tók til, þ.e. til mars 2011 þegar rannsóknin hófst. Í því samráðsbroti Byko fólst m.a.:

  Reglubundin, yfirleitt vikuleg, samskipti við gömlu Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á svonefndum grófvörum (grófvörur eru t.d. timbur, steinull og stál).

  Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum.

  Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.

  Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð á miðstöðvarofnum.

  Að hafa gert sameiginlega tilraun með gömlu Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Húsasmiðjunni að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum.


  Þann 3. nóvember 2015 komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu, í máli nr. 2015/920, að Samkeppniseftirlitinu bæri að afmá nafn tiltekins einstaklings úr ákvörðun sinni nr. 11/2015, Brot Byko á 10. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið hefur til skoðunar hvaða þýðingu úrskurður Persónuverndar hefur fyrir birtingu annarra nafna í ákvörðuninni. Úrskurður Persónuverndar byggir á tilvikabundnu mati og mælir ekki fyrir um afdráttarlaus viðmið í þeim efnum. Á meðan ekki hefur verið tekin afstaða til þessa hefur ákvörðunin sem birt er hér ekki að geyma nöfn einstaklinga.