|
Með bréfi dags. 19. september 2019, var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um fyrirhuguð kaup Ramma hf. (Rammi) á öllu virku hlutafé í Sigurbirni ehf. (Sigurbjörn) Að mati Samkeppniseftirlitsins felur framangreindur gerningur í sér samruna sem er tilkynningarskyldur í skilningi 17. gr. a. laganna. Starfsemi Ramma felst í rækjuvinnslu á Siglufirði og fiskvinnslu í Þorlákshöfn. Félagið á frystitogarann Sólberg og fer vinnsla fram um borð í honum. Sigurbjörn starfrækir fiskvinnslu í Grímsey. Þá er heill fiskur endurseldur af bátum félagsins á fiskmarkaði innanlands. Í samrunaskrá segir að starfsemi beggja samrunaaðila snúi að útgerð, þ.e.a.s. markaði fyrir veiðar á fiski við Ísland, auk fiskvinnslu og sölu á sjávarafurðum. Starfsemi félaganna sé því á sama sviði og um láréttan samruna að ræða. Samkvæmt Fiskistofu um úthlutun heildarafla eftir þorskígildum fyrir fiskveiðiárið 2019/2020, má ætla að eftir samrunann yrði heildaraflamagn samrunaaðila af heildarúthlutun afla slíkt að samruni félaganna leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist á markaði fyrir veiðar á botnfiski við Ísland. Að gögnum málsins virtum er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að kaup Ramma á Sigurbirni gefi ekki ástæðu til að aðhafast, s.s. með íhlutun í formi ógildingar eða setningu skilyrða.
|
36 / 2019
Rammi hf.
Sigurbjörn ehf.
Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
Sjávarútvegur og fiskvinnsla
Samrunamál
"*" indicates required fields