Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Sennilegt brot Hreyfils svf. gegn samkeppnislögum - ákvörðun til bráðabirgða

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 28/2023
 • Dagsetning: 20/7/2023
 • Fyrirtæki:
  • Hreyfill svf.
 • Atvinnuvegir:
  • Leigubílaþjónusta
 • Málefni:

  Engin málefni finnast

 • Reifun

  Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun til bráðabirgða vegna sennilegs brots Hreyfils gegn samkeppnislögum nr. 44/2005, með því að banna leigubifreiðastjórum sem keyra fyrir Hreyfil að nýta sér þjónustu annarra leigubifreiðastöðva.

  Frá því að Hopp hóf starfsemi hefur Hreyfill komið í veg fyrir að leigubifreiðastjórar sem keyra fyrir Hreyfil nýti sér þjónustu Hopp. Þá útilokuðu einnig reglur í samþykktum og stöðvarreglum Hreyfils félagsmenn frá því að nýta sér aðra þjónustu á markaði, sem þeim stæði til boða.

  Hreyfill hefur um árabil verið stærsta leigubifreiðastöð landsins með flesta leigubifreiðastjóra og gríðarlegan efnahagslegan styrk umfram keppinauta. Samkeppniseftirlitið tók samsvarandi háttsemi Hreyfils gagnvart öðru félagi til skoðunar árið 2020. Beindi Samkeppniseftirlitið þá tilmælum til Hreyfils að láta af háttseminni, sem bryti líklega gegn 11. gr. samkeppnislaga. Athugun þessa máls hefur leitt í ljós að Hreyfill hefur virt fyrrgreind tilmæli Samkeppniseftirlitsins að vettugi.

  Í bráðabirgðaákvörðuninni er þeim fyrirmælum beint til Hreyfils að láta af háttsemi sinni gagnvart Hopp án tafar, ásamt því að gera nauðsynlegar breytingar á reglum og samþykktum félagsins sem banna eða hamla því að leigubifreiðastjórar sem keyri fyrir Hreyfil nýti sér jafnframt þjónustu annarra aðila. 

  Þá skuli Hreyfill gefa út formlega tilkynningu til leigubifreiðastjóra sem nýta sér þjónustu félagsins þar sem upplýst er um bráðabirgðaákvörðunina og að leigubifreiðastjórum sé frjálst að nýta sér jafnframt þjónustu annarra aðila kjósi þeir það.