Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Meint brot Teymis hf., Og fjarskipta ehf. og IP-fjarskipta ehf. á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 og ákvæðum samkeppnislaga

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 1/2009
 • Dagsetning: 26/1/2009
 • Fyrirtæki:
  • Og fjarskipti ehf.
  • IP-fjarskipti ehf.
 • Atvinnuvegir:
  • Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
 • Málefni:
  • Markaðsyfirráð
 • Reifun

  Í bráðabirgðaákvörðun þessari er komist að þeirri niðurstöðu að Teymi, Vodafone og Tal hafi sennilega brotið gegn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 Samruni Teymis hf. og IP-fjarskipta ehf. og ákvæði 10. gr. samkeppnislaga með því að hafa komist að samkomulagi um að Tal ætti að beina sjónum sínum að yngri markhópum og stunda ekki samkeppni gagnvart Vodafone. Þá kemst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að sennilegt sé að tiltekin ákvæði í sýndarnetssamningi Tals og Vodafone um aðgang Tals að farsímaneti Vodafone séu til að tryggja hagsmuni Vodafone og Teymis sem sé andstætt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008. Telur Samkeppniseftirlitið að samningurinn geti dregið úr þeirri samkeppni sem Tal getur stundað á markaðnum og þar með fari þau í bága við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga.

  Samkeppniseftirlitið telur sennilegt að fulltrúar Teymis hafi beitt sér gegn samkeppnislegu sjálfstæði Tals og því sé nauðsynlegt að gera breytingar á stjórn Tals. Ella sé hætta á því að Teymi og Vodafone geti veikt Tal varanlega sem keppinaut á markaði.

  Því er mælt fyrir um að fulltrúar Teymis hf. í stjórn IP-fjarskipta hf. (Tali) víki og í stað þeirra skuli skipaðir tveir óháðir einstaklingar sem tilnefndir verða af Samkeppniseftirlitinu. Þá eru tiltekin ákvæði í samningi Tals og Vodafone um aðgang Tals að farsímaneti Vodafone lýst ógild á þeim grundvelli að þau séu andstæð ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 og ákvæði 10. gr. samkeppnislaga.

  Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til bráðabirgða gildir til 1. september 2009.