Ákvarðanir
Landsvirkjun sektuð vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 29/2025
- Dagsetning: 18/8/2025
-
Fyrirtæki:
- Landsvirkjun
-
Atvinnuvegir:
- Orkumál
- Raforkumál (framleiðsla, flutningur, dreifing og sala)
-
Málefni:
- Markaðsráðandi staða
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun um að leggja 1,4 milljarð króna sekt á Landsvirkjun. Eftir ítarlega rannsókn hefur Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun hafi með alvarlegum hætti misnotað markaðsráðandi stöðu sína með verðlagningu á raforku í útboðum Landsnets á árunum 2017 til 2021. Verðlagning Landsvirkjunar í umræddum útboðum gerði það að verkum að viðskiptavinir Landsvirkjunar, sem versluðu raforku af Landsvirkjun og tóku þátt í útboðum Landsnets í samkeppni við Landsvirkjun, gátu ekki selt raforkuna nema með tapi.
Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Landsvirkjun sé markaðsráðandi í framleiðslu og heildsölu á raforku á Íslandi. Er sú niðurstaða í samræmi við eigið mat fyrirtækisins eins og það birtist í innanhúsögnum og í yfirlýsingum þess á opinberum vettvangi.
Jafnframt er það niðurstaða eftirlitsins að Landsvirkjun hafi á tímabilinu 2017-2021 misnotað markaðsráðandi stöðu sína, með því að selja í mörgum tilvikum keppinautum sínum rafmagn í heildsölu á hærra verði en Landsvirkjun bauð sjálf í útboðum Landsnets. Þannig misnotaði Landsvirkjun markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir framleiðslu og heildsölu rafmagns (efra sölustig) með því að beita verðþrýstingi á markaði fyrir raforkukaup vegna flutningstapa (neðra sölustig).
Keppinautum Landsvirkjunar, sem keyptu raforku í heildsölu af Landsvirkjun og kepptu jafnframt við fyrirtækið í útboðum Landsnets, var með þessari háttsemi gert ómögulegt að jafna eða bjóða betra verð en Landsvirkjun, nema tapa á þeim viðskiptum.