Ákvarðanir
Kaup Landsbankans hf. á TM tryggingum hf
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 35/2025
- Dagsetning: 7/11/2025
-
Fyrirtæki:
- Landsbankinn hf.
- TM hf.
-
Atvinnuvegir:
- Fjármálaþjónusta
- Viðskiptabankaþjónusta
- Vátryggingastarfsemi
-
Málefni:
- Samrunamál
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Landsbankans hf. og TM trygginga hf. Meðferð málsins lauk með sátt Landsbankans við Samkeppniseftirlitið sem báðir aðilar höfðu lokið við að undirrita 21. febrúar 2025.
Landsbankinn er stærsti viðskiptabanki landsins og býður einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum upp á alhliða fjármálaþjónustu. TM er þriðja stærsta skaðatryggingafélag landsins og rekur það jafnframt líftryggingastarfsemi gegnum dótturfélag sitt TM líftryggingar hf. Samruninn er því að meginuppistöðu til svonefndur samsteypusamruni.
Þær samkeppnishömlur sem að óbreyttu hefðu leitt af samruna Landsbankans og TM tengjast að talsverðu leyti markaðssetningu og sölu vátrygginga TM gegnum dreifikerfi Landsbankans. Í kjölfar sáttarviðræðna féllst Landsbankinn á að gera sátt við Samkeppniseftirlitið til að vinna gegn þeim skaðlegu áhrifum sem ella hefðu hlotist af samrunanum. Með sáttinni skuldbindur bankinn sig til þess að tryggja að sérstök kjör á vátryggingum TM verði ekki háð því skilyrði að laun viðskiptavinar verði greidd inn á reikning hans hjá bankanum.
Tekur sáttin mið af því að launareikningar geti talist mikilvæg aðdráttarleið fyrir víðtækari bankaviðskipti. Þannig gætu smærri keppinautar á viðskiptabankamarkaði átt erfitt með að standa af sér áhrifin af því að bankar með sterka stöðu, líkt og Landsbankinn, bindi sérstök kjör á vátryggingum því skilyrði að viðskiptavinir séu með launareikning hjá viðkomandi banka. Þannig gæti slík háttsemi skert möguleika smærri keppinauta til vaxtar og viðgangs og þeir jafnvel útilokast frá samkeppni um stóran hluta viðskiptavina á markaðnum fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu.
Í sáttinni kemur jafnframt fram að Landsbankinn muni leitast við að starfa í samræmi við þau markmið sem fram koma í eldri sátt bankans við Samkeppniseftirlitið sem lýst er í ákvörðun nr. 22/2017, Aðgerðir til að efla samkeppni á viðskiptabankamarkaði. Miðaði umrædd sátt einkum að eftirfarandi:
a) Draga úr kostnaði sem viðskiptavinir verða fyrir þegar skipt er um viðskiptabanka.
b) Stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi af hálfu einstaklinga og lítilla fyrirtækja með þeim sem veita viðskiptabankaþjónustu á Íslandi.
c) Vinna gegn aðstæðum sem rennt gætu stoðum undir þögla samhæfingu á markaði/mörkuðum fyrir viðskiptabankaþjónustu.
Það skilyrði sem fram kemur í 2. gr. nýju sáttarinnar við Landsbankann kallast einkum á við b- og c‑liði ofangreindra markmiða. Svo sem fram kemur hér að framan er einkum stefnt að því með skilyrði nýju sáttarinnar að vinna gegn því að staða smærri keppinauta á viðskiptabankamarkaði veikist vegna kaupanna á TM. Það gæti m.a. liðkað fyrir þögulli samhæfingu stóru viðskiptabankanna þriggja.
Rannsókn málsins leiddi í ljós að hlutdeild TM á skaðatryggingamarkaði hafði dregist saman mörg ár í aðdraganda samrunans og vísbendingar eru um að það hafi stafað af veikari samkeppni félagsins um viðskiptavini en áður. Telur Samkeppniseftirlitið að með nýju eignarhaldi geti skapast svigrúm og hvatar til aukinnar samkeppni á skaðatryggingamarkaði.