Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Heimild fyrir Fjölgreiðslumiðlun hf. til að stýra innleiðingu og kynningu á örgjörvatækni vegna greiðslukorta.

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 18/2010
 • Dagsetning: 26/5/2010
 • Fyrirtæki:
  • Fjölgreiðslumiðlun hf.
 • Atvinnuvegir:
  • Greiðslukortastarfsemi
  • Fjármálaþjónusta
 • Málefni:
  • Annað
 • Reifun

  Samkeppniseftirlitið hefur veitt Fjölgreiðslumiðlunar hf. (FGM) undanþágu til að hafa forgöngu um sameiginlegt átak markaðsaðila og annarra hagsmunaaðila um innleiðingu örgjörva (EMV) í greiðslukort og notkun þeirra á Íslandi. Sett eru skilyrði.

  EMV örgjörvatækni byggir á því að settur er örgjörvi í greiðslukort sem hefur að geyma sambærilegar upplýsingar og nú finnast á segulrönd kortanna. Segulröndin verður áfram á kortunum fyrst um sinn þar til tæknibreytingin sem fellst í notkun örgjörvans hefur náð fullnægjandi útbreiðslu. Helsti munur á notkun kortanna er sá að í stað þess að afhenda greiðslukort við greiðslu fyrir vöru og þjónustu muni korthafinn afgreiða sig sjálfur með því að stinga kortinu í afgreiðslutæki hjá söluaðila og slá inn leyninúmerið (PIN) til staðfestingar og samþykkis viðskiptunum. FGM hafði lýst vilja til að taka að sér frumkvæði og samræmingu í því sambandi til hagsbóta fyrir félagið og greiðslumiðlunarkerfi þess en einnig og ekki síst fyrir alla aðila sem hagsmuni hafi af öryggi og skilvirkni í greiðslumiðlunarkerfum, þ.e. kortaútgefendur, færsluhirða, söluaðila, korthafa og tækniþjónustuaðila. Að mati FGM sé hér fyrst og fremst um að ræða öryggismál í notkun greiðslukorta á Íslandi sem varði ekki samkeppnismál.

  Er það mat Samkeppniseftirlitsins að unnt sé að heimila samstarfið um þetta sérstaka verkefna á grunni tiltekinna skilyrða. Er skilyrðunum ætlað að tryggja að ekki komi til samráðs á hinum skilgreindu mörkuðum sem raskað geti samkeppni með einum eða öðrum hætti. Þannig er skilyrðunum í fyrsta lagi ætlað að stuðla að jafnræði í útgáfu debetkorta með örgjörva, í öðru lagi að koma í veg fyrir samráð banka og sparisjóða sem hamlað geti samkeppni í útgáfu greiðslukorta, í þriðja lagi að varna því að færsluhirðar hafi með sér samstarf sem takmarki samkeppni í færsluhirðingu hjá söluaðilum og í fjórða lagi tryggi FGM með samræmdri upplýsingagjöf að birgjar tæknibúnaðar og í hugbúnaðargerð standi jafnfætis í aðkomu að verkefninu.

  Brot á skilyrðum varðar viðurlögum skv. samkeppnislögum.